Við fallega en látlausa athöfn í Dómkirkjunni í Reykjavík, undir kvöld í gær, voru Máni Hafsteinsson og Elínrós Þorkelsdóttir gefin saman í hjónaband af sr. Sveini Valgeirssyni. „Hamingjuna skapar fólk sjálft og aðstæðurnar skipta kannski ekki öllu máli. Rómantíkin getur alveg legið í loftinu síðdegis á þriðjudegi á illviðrisdegi í febrúar. Allt er þetta bara spurning um hugarfar,“ sagði Máni í samtali við Morgunblaðið.
Tugir para gengu upp að altarinu í kirkjum landsins í gær og létu gifta sig við svonefndar drop-in-athafnir. Sums staðar var skipulögð dagskrá að þessu leyti, en annarsstaðar voru stakar athafnir. Mörgum þótti að ganga í hið heilaga alveg gráupplagt, samanber tölur dagsins sem voru 22-02-22. Svona gerist ekki oft, en þó má minna á að næsta ári er 23-03-23 og þær tölur gætu visslega falið eitthvað skemmtilegt í skauti sér.
„Fram eftir degi tókst okkur að halda leyndu fyrir fólkinu okkar hvað stæði til. Einhverja var þó farið að renna í grun hvað stæði til þegar við sögðum fólki að mæta niður í Kvos, þangað sem við ætluðum að bjóða fólki í mat á veitingastað. Athöfnin í kirkjunni var falleg, en viðstaddir þar voru foreldrar okkar og allra nánustu vinir, “ segir Máni.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.