Blendnar tilfinningar yfir afléttingum

Willum Þór segir ærin verkefni framundan.
Willum Þór segir ærin verkefni framundan. mbl.is/Kristinn Magnússon

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra reynir að gleðjast í dag eftir að hafa tilkynnt að öllum takmörkunum vegna heimsfaraldurs Covid-19 verði aflétt aðfararnótt föstudags. Hann viðurkennir þó að tilfinningarnar séu blendnar enda er fyrirséð að mikið álag verði áfram á heilbrigðisstofnanir vegna mikillar útbreiðslu veirunnar í samfélaginu.

„Ég skal alveg viðurkenna að það eru blendnar tilfinningar. Þær eru blandaðar gleði yfir því að við endurheimtum okkar líf. Ekki síst með tilliti til félagslegra og andlegra þátta, ekki síst barna og unglinga og fjölskyldna að fá lífið sitt til baka. Að þurfa ekki að vera alltaf í vafa um hvort eigi að vera með grímu þarna eða hvort megi gera þetta, vera nógu lengi í einangrun og allt þetta,“ segir Willum, en mbl.is ræddi við hann eftir ríkisstjórnarfundinn í dag.

„En svo hef ég áhyggjur af heilbrigðisstofnunum. Þetta er mikið álag, þrátt fyrir að þetta hafi gengið lengi, bæði með útsjónarsemi, mikilli vinnu og mikilli aukavinnu, þá verður þetta snúið næstu daga og vikur fyrir heilbrigðisstofnanir.“

Verkefnin ærin næstu daga

Það þurfi því að styðja við heilbrigðisstofnanir og finna út úr því í samráði við stjórnendur hvað hægt sé að gera. Það hafi þó mikið að segja að dregið hafi úr álagi á gjörgæslu.

„Síðan er það að þegar það er mikið af starfsfólki í burtu, þá hægist á annarri heilbrigðisþjónustu sem hefur tekist að halda í horfinu, en það hefur sannarlega hægst á öllu og það eru komnir biðlistar. Þannig verkefninu eru ærin.“

Willum sér því ekki fram á neina afslöppun á næstunni, þó öllu verði aflétt, nema síður sé.

Starfsfólki Landspítalans í einangrun fækkaði töluvert á milli daga og segir Willum það gefa von um að ástandið sé að batna og að hægt verði að vinna með það áfram.

„Ef við erum veik þá erum við heima“

„Stofnanarnir sjálfar hafa, til að vernda sjúklingina og þá sem eru inni á gólfinu gegn smitum, haft það þannig að starfsmenn sem hafa smitast farið í fimm daga einangrun plús tvo. Nú er nóg að vera hitalaus í sólarhring. Þetta eru bara ákvarðanir sem þarf að taka dag frá degi, bara til að ráða við stöðuna.“

Willum segir það áfram gilda um starfsmenn spítalans, sem og aðra, að ef fólk er veikt þá á það að vera heima þó það þurfi ekki að sæta einangrun.

„Ef við erum veik þá erum við heima. Við þekkjum það ef við fáum flensu eða einhver önnur veikindi, þá þurfum við bara að fara vel með okkur. Hérna bætist við þessi sjúkdómur og við erum farin að nálgast hann eins og önnur veikindi og höfða til ábyrgðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert