Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi á Vestfjörðum en hættustigi hefur verið lýst yfir í Súðavíkurhlíð og var veginum um hana lokað í hádeginu. Spár gera ráð fyrir talsverðri snjókomu, skafrenningi og lélegu skyggni. Víðtækar samgöngutruflanir eru líklegar og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi.
Appelsínugul veðurviðvörun tekur gildi við Breiðafjörð klukkan 14 í dag og á sama tíma taka gular viðvaranir gildi á öllu Norðurlandi en þær gilda allar til miðnættis.
Líkt og á Vestfjörðum má búast við snörpum vindhviðum við fjöll og víðtækum samgöngutruflunum við Breiðafjörð á meðan veðrið gengur yfir.
Sömuleiðis má búast við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum á Norðurlandi. Vegfarendur eru hvattir til að fylgjast með veðurspám og ástandi vega.