Ófært og ekkert ferðaveður er á flestum leiðum á Vestfjörðum þar sem appelsínugul veðurviðvörun er í gildi til miðnættis. Vindhviður fara í allt að 35 m/s og talsverð snjókoma og skafrenningur er víða.
Vegirnir um Mikladal, Kleifaheiði, Hálfdán, Dynjandisheiði, Gemlufallsheiði, Súðavíkurhlíð, Steingrímsfjarðarheiði og Flateyrarvegur eru ófærir og lokaðir, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.
Þar segir enn fremur að færðin muni spillast enn frekar þegar líður á daginn og eru vegfarendur hvattir til að kynna sér aðstæður áður en þeir leggja af stað.