Grunuð um dreifingu klámefnis

Blaðamennirnir fjórir: Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, Arnar Þór Ingólfsson, …
Blaðamennirnir fjórir: Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður á Kjarnanum, Þóra Arn­órs­dóttiur, rit­stjóri Kveiks á Rík­is­út­varp­inu og Þórður Snær Júlí­us­son, rit­stjóri Kjarn­ans, Samsett mynd

Í greinargerð sem lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra lagði fram fyrir dómi í dag segir að blaðamennirnir fjórir sem hafa verið boðaðir til skýrslutöku séu grunaðir um kynferðisbrot gegn Páli Steingrímssyni, skipstjóra Samherja.

Stundin greinir frá en einn sakborninganna er Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður Stundarinnar. Lögreglan lagði fram greinargerðina vegna þess að Aðalsteinn fór fram á að úr lög­mæti aðgerða lög­reglu yrði skorið.

Í greinargerðinni, sem Stundin hefur undir höndum, segir að í meinta kynferðisbrotinu felist að blaðamennirnir hafi dreift kynferðislegu efni.

Afrit af kynferðislegum myndböndum sent úr símanum

„Lögreglan hefur staðfest að myndbönd af kynferðislegum toga hafi verið í síma brotaþola og að afrit slíkra myndbanda hafi verið sent úr símanum. Brotaþoli hefur staðfest við lögreglu að í síma hans hafi verið myndbönd af honum í kynlífsathöfnum,“ segir í greinargerðinni.

Í umfjöllun Stundarinnar er bent á að hvergi sé minnst á það í greinargerðinni að umrædd myndbönd hafi verið send til blaðamannanna eða að þeir hafi komið að sendingu klámefnisins. Þá hafi engin tilvísun verið í klámefni í umfjöllun fjölmiðla um „skæruliðadeild Samherja“.

„Þar sem X afhenti ekki gögn úr símanum heldur símann sjálfan liggur fyrir að fjölmiðlar sem tóku við símanum afrituðu hann. Ekki er ljóst hvort síminn var afritaður að hluta eða að öllu leyti en ljóst er að þeir sem afrituðu símann hafa þurft að skoða allt sem í símanum var þó þeir hafi bara afritað hann að hluta. Það er ljóst að gögnum úr þessum afritaða síma var dreift á milli fjölmiðlamanna, þ.á.m. hugsanlega kynlífsmyndböndum,” segir í greinargerðinni.

Fjölmiðlar hagnýtt sér viðkvæma stöðu heimildarmannsins

Í greinargerð lögreglunnar kemur fram að lögreglan telji sig hafa fengið fram játningu einstaklings sem er nákominn Páli þess efnis að hann hafi byrlað Páli svefnlyfjan, stolið síma hans og dreift efni til fjölmiðla.

Þá hafi lögreglan undir höndum töluvert af bæði símasamskiptum og tölvupóstsamskiptum heimildamannsins, X, við ákveðna blaðamenn.

„X viðurkennir að hafa skoðað innihald síma brotaþola og hafa ekki fengið heimild brotaþola til að gera slíkt. Hann viðurkennir líka að hafa afhent fjölmiðlamönnum símann daginn eftir að flogið var með brotaþola í sjúkraflugi til Reykjavíkur,“ segir í greinargerðinni.

Þá segir lögreglan fjölmiðla hafa hagnýtt sér viðkvæma stöðu heimildarmannsins sem sé mjög viðkvæmur og hugsanlega í hefndarhug. Þá hafi fjölmiðlar nýtt sér brot hans bæði faglega og fjárhagslega í stað þess að staldra við og veita heimildarmanninum hjálp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert