Hafna alfarið lýsingu Hermanns

Hermann Valsson.
Hermann Valsson. mbl.is/Arnþór

Glímufélagið Ármann hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hafnað er alfarið lýsingu Hermanns Valssonar á atviki á júdóæfingu á vegum Ármanns, eins og hún birtist í viðtali í SunnudagsMogganum um helgina.

„Það fylgir því mikil ábyrgð að stunda judo og Glímufélagið Ármann leggur metnað sinn í að búa iðkendum öruggt og faglegt umhverfi til að stunda íþróttir. Öll atvik sem upp koma eru tekin alvarlega og af þeim er dreginn lærdómur. Þegar sú vinna fer fram er mikilvægt að leiða fram staðreyndir málsins og hlusta á atvikalýsingar viðstaddra,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.

Segir enn fremur að í viðtalinu sé dregin upp dökk mynd af viðbrögðum viðstaddra.

„Var þar um að ræða einhliða lýsingu aðila á atviki sem átti sér stað á æfingu hjá félaginu í janúar 2021. Glímufélagið Ármann hefur skoðað þetta atvik og fengið lýsingar viðstaddra á því sem átti sér stað.

Í stuttu máli gefa allir viðstaddir sömu lýsingu á því sem gerðist utan eins aðila, sem gaf sína lýsingu á atvikum í umræddri grein. Fullyrðingar þessa eina aðila um það sem gerðist stangast því á við upplifun allra annarra sem voru á æfingunni. Í ljósi þessa getur Glímufélagið Ármann ekki annað en hafnað alfarið lýsingum viðkomandi aðila á atburðum sem fóru fram á umræddri judoæfingu í janúar 2021 enda í grundvallaratriðum í andstöðu við það sem að aðrir sáu og upplifðu.“

Ármann segir æfingafélaga, deildina og judosamfélagið allt hafa sýnt Hermanni mikinn samstarfsvilja.

„Hann var ítrekað boðaður á fundi með fólki á vegum deildarinnar sem hann ýmist hafnaði, frestaði eða hundsaði. Undir það síðasta hefur hann hótað málssóknum, kærum og óskað eftir fébótum. Sú skaðabótakrafa viðkomandi er nú til meðferðar hjá tryggingafélagi Glímufélagins sem mun taka afstöðu til hennar.

Umrædd blaðagrein vegur með ámælisverðum og röngum hætti að heiðri félagsins, þjálfurum þess og þeim iðkendum sem þarna voru viðstaddir. Því harmar Glímufélagið Ármann að Morgunblaðið hafi birt þessa einhliða lýsingu án þess að veita félaginu, þjálfurum og öðrum viðstöddum að koma að leiðréttingum og sínum sjónarmiðum.

Glímufélagið Ármann ítrekar að ekkert skiptir félagið meira máli en öryggi iðkenda. Það atvik sem átti sér stað hefur verið skoðað og af því dreginn lærdómur. Að skapa slíkt öruggt umhverfi getur hins vegar líka falist í því að verja þjálfara okkar og iðkendur fyrir röngum ásökunum. Það er gert hér með,“ segir í yfirlýsingu Ármanns.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert