Öllum takmörkunum aflétt á föstudag

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynntu fulla …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynntu fulla afléttingu sóttvarnaaðgerða eftir ríkisstjórnarfund í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Öllum takmörkunum vegna heimsfaraldurs Covid-19 verður aflétt aðfaranótt föstudags, bæði innanlands og á landamærum.

Þetta kom fram í máli Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.

Einhugur var innan ríkisstjórnar um þessa ákvörðun og eru afléttingar í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis en hann varpaði fram þremur sviðsmyndum.

Takmarkanir ná ekki að hemja útbreiðslu

Helstu rökin fyrir því að aflétta öllu er að útbreiðsla smita er það mikil að takmarkanir virðast ekki ná að stemma stigu við hana. Þá eru vísbendingar um að það séu umtalsvert fleiri sem hafa smitast en opinberar tölur geta staðfest.

„Það blasir ekki við að takmarkanir skili neinu á þessum tímapunkti,“ sagði Willum við blaðamenn.

Fólk fari varlega

Rúm tvö ár eru liðin frá því að faraldurinn náði fótfestu hér á landi með tilheyrandi sóttvarnaaðgerðum. Veiran er þó ekki enn farin og eru það enn tilmæli stjórnvalda að veikt fólk haldi sig heima. Þá er einnig mælt með því að fólk fari varlega í umgengni við viðkvæma hópa og noti m.a. grímur þegar við á, t.d. á heilbrigðisstofnunum þó svo að almenn grímuskylda falli niður. 

Voru ráðherrarnir þó á sama máli um að flestir landsmenn væru nú farnir að þekkja sjúkdóminn það vel að þeir ættu ekki í erfiðleikum með að hegða sér skynsamlega.

Fyrr í dag kom fram í tilkynningu sóttvarnalæknis að hætta ætti almennri PCR-sýnatöku og þess í stað verði hraðgreiningarpróf notuð. Verður jákvæð niðurstaða úr þeim næg til greiningar á Covid-19 sjúkdómnum. Þeir sem greinast verða jafnframt ekki skyldaðir í einangrun þó svo að mælt sé með því.

„Til hamingju með daginn“

Spurð hvað tíðindi dagsins þýði, segir Katrín Íslendinga vera að endurheimta eðlilegt líf en að veiran sé ennþá með okkur.

Þá hefur heilbrigðisráðherra enn miklar áhyggjur af mönnunarvanda heilbrigðisstofnana og smitum meðal sjúklinga.

 „Við veitum allan þann stuðning sem að þarf til, til þess að styðja við okkar heilbrigðisstofnanir í gegnum þetta.

Þá segir Katrín ekki útilokað að aðgerðir verði teknar upp aftur mjög hratt ef ástæða þykir, til að mynda vegna tilkomu nýrra afbrigða.

Spurð hvort þetta komi til með að vera síðasti fundurinn vegna Covid-19, segir Willum það óskandi.

„Til hamingju með daginn,“ sagði hann að endingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka