Samtökin Unicef á Íslandi, Barnaheill og Hemili og skóli sendu í dag frá sér tilkynningu þar sem þau lýsa óánægju vegna dóms sem féll í héraðsdómi Norðurlands, og varðaði brottrekstur kennara.
Það hafi verið reiðarslag, „þar sem skeytingaleysi gagnvart réttindum barna og úreltar hugmyndir skutu aftur upp kollinum“, eins og það er orðað í tilkynningunni.
Dómurinn féll nýlega og voru kennara dæmdar 8 milljónir í skaðabætur vegna ólögmæts brottrekstrar, en honum var vikið úr starfi eftir að hafa fengið kinnhest frá nemanda og veitt honum kinnhest á móti.
Í tilkynningu frá samtökunum kemur fram að dómurinn vísi hvergi til 19. greinar Barnasáttmálans um ráðstafanir til að vernda barn gegn ofbeldi.
Þá sé ekki minnst á valdaójafnvægi milli barns og fullorðins einstaklings. Í dómnum sé heldur ekki að finna viðurkenningu á viðkvæmri stöðu barnsins og að fagfólki beri skylda til að vernda börn.
Samtökin segjast telja það áhyggjuefni ef dómstólar landsins ýti undir fordóma gagnvart börnum og viðurkenni ekki rétt barna til verndar gegn ofbeldi.
Það færi baráttuna fyrir réttindum barna áratugi aftur í tímann.
„Við skorum á dómstóla landsins til þess að fylgja Barnasáttmálanum, berjast gegn fáfræði um réttindi barna, tryggja vernd barna, og ábyrgð fullorðinna“, segir í tilkynningunni.