Ríkisstofnunum hefur fækkað umtalsvert á undanförnum árum og ýmis dæmi eru um vel heppnaðar sameiningar stofnana en enn eru tækifæri til samstarfs, samvinnu og sameininga og er mikilvægt að kanna frekari möguleika á því.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisstofnanir. Þar segir m.a. að með hliðsjón af smæð þriggja af fjórum opinberum háskólum á Íslandi sé „full ástæða að kanna hvort auka megi stærðarhagkvæmni þeirra með sameiningu eða auknu samstarfi“. Skoða megi einnig hvort tilefni er til að taka upp þráðinn að nýju varðandi sameiningu Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskólans og einnig megi skoða aukna samvinnu og/eða sameiningu stofnana á borð við Raunvísindastofnun og Stofnun Árna Magnússonar.
Ríkisstofnunum hefur fækkað um 94 frá árinu 1998 þegar þær voru 250 talsins sem er fækkun um tæp 38%. Voru þær 156 á seinasta ári. Stofnunum hefur einkum fækkað vegna sameininga, hlutafjárvæðingar og flutnings verkefna til sveitarfélaga. Fram kemur að tveir þriðju hlutar ríkisstofnana eru á höfuðborgarsvæðinu en þriðjungur á landsbyggðinni. Ríflega helmingur ríkisstofnana er með færri en 50 starfsmenn og fjórðungur með færri en 20. Er minnsta ríkisstofnunin með tvo starfsmenn en sú stærsta er með ríflega 6.500 starfsmenn.
Tvö ráðuneyti skera sig úr þegar rýnt er í stofnanaflóru Stjórnarráðsins en það eru mennta- og menningarmálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið. Ríflega helmingur allra ríkisstofnana heyrir undir þau. Vakin er athygli á að 53 stofnanir heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og eru framhaldsskólar um helmingur þeirra. Telur Ríkisendurskoðun að þar séu sóknarfæri til stóraukins samstarfs og jafnvel sameininga. „Fjöldi ríkisstofnana segir ekki alla söguna því mörg ráðuneyti eru í samningssambandi við sjálfseignarstofnanir og félög. Mennta- og menningarmálaráðuneyti greiðir t.a.m. árlega um 25 [milljarða kr.] á grundvelli slíkra samninga sem eru nú 100 talsins (2021). Slíkur fjöldi þyngir verulega eftirlitshlutverk ráðuneytisins,“ segir í skýrslunni.