„Væri það ekki bara gott?“ svaraði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þegar hann var spurður fyrir ríkisstjórnarfund í Ráðherrabústaðnum hvort við megum eiga vona á fullri afléttingu á sóttvarnaaðgerðum innanlands.
Bjarni sagðist búast við góðum fréttum að loknum fundinum, er hann labbaði upp tröppurnar.
Fundurinn hófst klukkan 12 þar sem rætt verður um fyrirhugaðar afléttingar á sóttvarnaaðgerðum innanlands.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagðist ekki ætla að tjá sig við blaðamenn fyrr en eftir fundinn.
Núgildandi reglugerð um takmarkanir innanlands rennur út á föstudaginn 25. febrúar. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur nú þegar skilað minnisblaði með tillögum varðandi afléttingar.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur áður sagt að stefnt verði að því að aflétta öllum takmörkunum þegar reglugerðin rennur út á föstudaginn. Í samtali við mbl.is í gær sagði hann að það gæti mögulega gerst fyrr, sem væri þá í dag eða á morgun.