Ætla sér ekki að flýta aðalfundi Eflingar

Trúnaðarráð ályktaði um að aðalfundi skyldi flýtt.
Trúnaðarráð ályktaði um að aðalfundi skyldi flýtt. Samsett mynd/mbl.is

Þau svör hafa borist lögmanni Sólveigar Önnu Jónsdóttur, nýkjörins formanns Eflingar, að ljúka þurfi reikningum félagsins fyrir aðalfund, en þeirri vinnu verði ekki lokið fyrr en í apríl.

Sitjandi stjórn virðist því ekki ætla að fara að ályktun trúnaðarráðs Eflingar um að fundinum skuli flýtt og að hann fari fram fyrir 15. mars. Stjórnarkosningum var flýtt og telur Sólveig því málefnaleg rök fyrir því að flýta einnig aðalfundinum sem í venjulegu árferði fer fram í apríl.

Hafi þegar misst umboðið

Sólveig fól Gunnari Inga Jóhannssyni hæstaréttarlögmanni að krefjast upplýsinga um það fyrir hönd B-listans hvenær boðað yrði til aðalfundar og stjórnarskipta. Kröfubréf var sent á Agnieszku Ewu Ziół­kowska sem er sitjandi formaður Eflingar.

Í bréf­inu seg­ir einnig að frá­far­andi formaður og stjórn­ar­menn hafi „þegar misst umboð fé­lags­manna til að fara með mál­efni fé­lags­ins“. Trúnaðarráð fé­lags­ins hafi ályktað um að aðal­fundi fé­lags­ins skuli flýtt og hann fari fram fyr­ir 15. mars nk. „Stjórn fé­lags­ins ber að fara að álykt­un­um trúnaðarráðs,“ seg­ir meðal ann­ars í bréf­inu. 

Ekki nýtt tímann til undirbúnings

„Það virðist sem stjórn félagsins hafi ekki verið að fara að þessari ályktun trúnaðarráðsins með því að undirbúa þessa reikningavinnu, eða nýta tímann til þess,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is.

Þrátt fyrir svör sitjandi stjórnar um að ekki standi til flýta aðalfundinum segir Gunnar ekki útséð um að fundurinn fari fram fyrir 15. mars. Það sé enn krafa Sólveigar Önnu og verið sé að skoða næstu skref.

Hvorki náðist í sitjandi formann Eflingar né varaformann við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert