Almennri notkun PCR-prófa hætt í dag

Almennri notkun PCR-prófa var hætt í dag.
Almennri notkun PCR-prófa var hætt í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Almennri notkun PCR-prófa var hætt í dag. Þannig er ekki leng­ur í boði fyr­ir al­menn­ing með ein­kenni sem benda til smits af völd­um Covid-19 að panta PCR-sýna­töku held­ur eru hraðgrein­inga­próf ein­ung­is í boði.

Þetta staðfestir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Þeir sem fengu óvissa niðurstöðu fari aftur í próf

Hámarki PCR-greiningargetu vegna Covid-19 var náð fyrir nokkru síðan sem leiddi til þess að bið eftir niðurstöðu úr PCR-greiningum var orðin allt að 3 sólarhringar, sem er óásættanleg, að því er kom fram í tilkynningu frá sóttvarnalækni í gær. Til að bregðast við þessu hafi svo verið ákveðið að hætta almennri notkun PCR-prófa.

„En við getum náttúrulega tekið þau á læknisfræðilegum forsendum,“ segir Sigríður.

Spurð segir hún það einnig eiga við um þá einstaklinga sem hafa nýlega fengið óvissa niðurstöðu á PCR-prófi.

„Það fólk er að fara aftur í próf en það þarf þá að hafa samband við sína heilsugæslu til að fá beiðni fyrir því.“

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu mbl.is/Árni Sæberg

Prófanir fara áfram fram á Suðurlandsbraut

Þá verði PCR-próf áfram í boði fyrir þá sem þurfa á neikvæðum niðurstöðum slíkra prófa að halda vegna ferðalaga erlendis en þá gegn gjaldi.

Samkvæmt tilkynningu frá sóttvarnalækni er bæði hægt að panta tíma í hraðgreiningapróf hjá heilsugæslunni í gegnum Heilsuveru og hjá þeim einkafyrirtækjum sem bjóða upp á hraðgreiningapróf. Prófið er einstaklingum að kostnaðarlausu.

Jákvætt hraðgreiningapróf mun því nægja til greiningar á Covid-19 og ekki verður þörf á staðfestingu á greiningunni með PCR-prófi.

Prófanir á vegum heilsugæslunnar munu eftir sem áður fara fram á Suðurlandsbraut 34, segir Sigríður innt eftir því.

Þeim sem nú greinast með COVID-19 á hraðgreiningaprófi er ekki skylt að dvelja í einangrun en engu að síður eru tilmæli sóttvarnayfirvalda þau, að fólk dvelji í einangrun í 5 daga. Ef fólk er einkennalítið eða einkennalaust þá getur það mætt til vinnu en fari þá eftir leiðbeiningum um smitgát í 5 daga.

Samkvæmt núgildandi reglugerð um einangrun, sem fellur úr gildi á miðnætti í kvöld, þá er þeim sem greinast með PCR-prófi hins vegar skylt að dvelja í einangrun í a.m.k. 5 daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert