„Fyrir Úkraínumenn er þetta ekkert nýtt“

Óskar Hallgrímsson er búsettur í Kænugarði.
Óskar Hallgrímsson er búsettur í Kænugarði. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég ætla að vera hér,“ segir Óskar Hallgrímsson, ljós­mynd­ar­i og mynd­list­armaður, sem bú­sett­ur er í Kænug­arði, spurður um sín næstu skref eftir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti fyrirskipaði innrás í Úkraínu í nótt. Óskar segist þó alls ekki óttalaus. „Flestallir eru mjög óttaslegnir í dag,“ segir Óskar um stöðuna í Kænugarði.

Hann ræddi við þáttastjórnendur Ísland vaknar á K100 nú í morgun.

Óskar vaknaði um klukkan fimm í morgun að staðartíma, líklega við hljóðin í sprengju en allnokkrar þeirra sprungu í Kænugarði í morgun. Óskar sjálfur heyrði alls í sex sprengjum í heildina. Var fólk á svæðinu helst hrætt við að landher væri kominn inn í borgina en það virðist ekki vera raunin. Sprengjunum var varpað úr lofti og hafa Úkraínumenn varist með því að skjóta niður eldflaugar, dróna og þyrlur.

„Fólk er orðið svo samdauna þessu“

Innrás Pútíns hefur verið yfirvofandi í nokkra mánuði. Spurður um líðan fólks að undanförnu segir Óskar:

„Fram að síðustu dögum hefur líðanin verið nokkuð venjuleg, fólk er orðið svo samdauna þessu. Fyrir ykkur er þetta frekar nýlegt en fyrir Úkraínumenn er þetta ekkert nýtt, þetta er stríð sem er búið að vera í gangi alltaf og þeir gerðu nákvæmlega það sama 2014 þegar þeir tóku yfir Krím þannig að í raun og veru fóru þeir eftir sömu bók í gær, áður en þeir létu til skarar skríða á svona mörgum stöðum. Það bjóst eiginlega enginn við því að hann [Vladimír Pútín forseti Rússlands] myndi gera þetta eins og hann gerði þetta.“

Frá lestarstöð í Kænugarði í morgun. Sumir kjósa að flýja …
Frá lestarstöð í Kænugarði í morgun. Sumir kjósa að flýja borgina. AFP

Plan-A farið

Óskar segir að Úkraínumenn hafi margir hverjir verið með nokkrar viðbragðsáætlanir tiltækar ef til árásar kæmi. „Það eru flest allir að la´ta plönin sín ganga í gegn hérna. Flestallir hérna hafa verið með A-plan, B-plan og C-plan eftir því hvað gerist,“ sagði Óskar.

Nú hefur verið lokað fyrir alla flugumferð til og frá Kænugarði. „Þannig að plan-A, að fljúga út úr borginni, er farið.“

Þá segir Óskar að plan-B hjá flestum sé að keyra út úr borginni, vestur á bóginn, lengra inn í Úkraínu eða alla leið til Póllands.

Pútín svo „ruglaður“ að erfitt er að spá í spilin

Óskar býr ásamt konu sinni í miðborg Kænugarðs. Íbúðin er staðsett við hlið húss Örygg­is- og sam­vinnu­stofn­un­ar Evr­ópu, OSCE, og segir Óskar að staðsetningin sé fremur örugg.

„Það eru mjög litlar líkur á að akkúrat íbúðin okkar verði fyrir einhverju aðkasti. Það er aðallega ef við missum rafmagn eða hita eða vatn eða eitthvað svoleiðis. Maður óttast það kannski helst. Eins og staðan er þá er öruggast fyrir okkur að vera heima núna. Ég vil helst ekki fara í það að græja mér einhvern bíl og keyra út úr borginni og festast svo bara í einhverri umferðarteppu hérna fyrir utan borgina svo klukkutímum skiptir,“ segir Óskar sem sér fram á að reyna að komast í matvöruverslun fljótlega, áður en hillur búðanna tæmast.

Ýmsu hefur verið spáð um næstu skref Pútíns í innrásinni. „Hann er greinilega með eitthvað plan, það veit enginn hvað það er,“ segir Óskar um það. Hann bendir á að Pútín sé sagður óútreiknanlegur og því erfitt að segja til um það hvað hann gerist næst. „Hann er svo ruglaður að maður veit það ekki. Það er einmitt staðan núna. Maður bjóst ekkert við þessu en alþjóðasamfélagið virðist vera að bregðast mjög hratt við þessu núna sem er mjög gott.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert