Íslensk stjórnvöld fordæma árásir Rússa

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mbl.is/Unnur Karen

Íslensk stjórnvöld fordæma harðlega víðtækar árásir rússneskra stjórnvalda á Úkraínu og lýsa harmi yfir þeirri eyðileggingu og þjáningu sem slík innrás óhjákvæmilega veldur.

„Hugur okkar er hjá því saklausa fólki sem verður fyrir barðinu á stríðsrekstri og ógnartilburðum Rússlands í Úkraínu. Ísland fordæmir harðlega ólögmæta innrás Rússlands í Úkraínu sem á sér enga réttlætingu. Við krefjumst þess að Rússar stöðvi hernaðaraðgerðir sínar sem geta valdið miklum hörmungum. Árásin er alvarlegt brot á alþjóðalögum og kallar á hörð viðbrögð frá alþjóðasamfélaginu,” segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, í tilkynningu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra bætir við: „Stríðsrekstur Rússa í Úkraínu er raunveruleg ógn við öryggi í Evrópu. Við stöndum staðfastlega með okkar bandalagsríkjum og nánustu samstarfsríkjum og tökum fullan þátt í víðtækum þvingunaraðgerðum sem verða útfærðar í dag og á morgun. Ísland hefur lýst algjörum stuðningi við Úkraínu og fordæmir innrás gegn löghelgi landamæra þeirra. Við tökum heilshugar undir kröfu um að Pútín Rússlandsforseti dragi herlið sitt tafarlaust frá Úkraínu,“ segir Þórdís Kolbrún í tilkynningunni.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram kemur að Atlantshafsbandalagið hafi gert viðeigandi ráðstafanir, viðbragðsstaða verið aukin og varnarviðbúnaður styrktur. Þá fór fram fundur í fastaráði bandalagsins í morgun á grundvelli 4. greinar Atlantshafssáttmalans sem kveður á um samráð telji eitt eða fleiri bandalagsríki öryggi sínu ógnað. Með styrkingu á varnarviðbragði er átt við að viðbragðsstaða herafla bandalagsins er aukin. Þessi ákvörðun getur haft í för með sér aukin umsvif og sýnileika herafla bandalagsins í aðildarríkjunum.

Ein milljón evra til mannúðaraðstoðar

„Ísland mun leggja sitt af mörkunum til að styðja við Úkraínu. Í því felst meðal annars áframhaldandi stuðningur við þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi. Þá hefur verið tekin ákvörðun um að veita sem svarar einni milljón evra til mannúðaraðstoðar í Úkraínu. Þá hefur Ísland sett 200.000 evrur í áætlun Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu um þróun sérfræðiþekkingar á sviði öryggis- og varnarmála (NATO Ukraine Professional Development Programme),“ segir í tilkynningunni.

„Sendiherra Rússa á Íslandi var boðaður til fundar í utanríkisráðuneytinu í gær og aftur í dag þar sem ráðuneytið gerði grein fyrir afstöðu Íslands og kom á framfæri hörðum mótmælum.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins veit nú af 16 íslenskum ríkisborgurum í Úkraínu og samtals 28 sem borgaraþjónustan er í sambandi við. Viðbúið er að tölur um fjölda Íslendinga á svæðinu geti breyst. Áfram verður haft náið samráð við borgaraþjónustur Norðurlandanna,“ segir þar einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert