Reiknað með harðari þvingunum frá Íslandi

Varnarmálaráðuneyti Rússlands í Moskvu. Aðgerðir ESB beinast meðal annars gegn …
Varnarmálaráðuneyti Rússlands í Moskvu. Aðgerðir ESB beinast meðal annars gegn varnarmálaráðherranum. AFP

Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir Sveinn H. Guðmarsson upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins að ljóst sé að hernaður Rússlands gagnvart Úkraínu kalli á miklu harðari og umfangsmeiri þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins en þær sem þegar hefur verið hrundið í framkvæmd.

Þó hafi ekki enn verið greint nákvæmlega í hverju þær muni felast.

„Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur ítrekað lýst því yfir að Ísland muni taka þátt í slíkum aðgerðum til að undirstrika einarða afstöðu Íslands með alþjóðalögum og virðingu fyrir landamærum og lögsögu ríkja,“ segir í svarinu.

Þá segir að íslensk stjórnvöld hafi tekið þátt í alþjóðlegum þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi vegna ólöglegrar innlimunar Rússlands á Krímskaga og aðildar Rússlands að átökunum í austurhluta Úkraínu, sem og stuðningi við vopnaðar sveitir. 

Innrás Rússa var mótmælt í Reykjavík í dag.
Innrás Rússa var mótmælt í Reykjavík í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Nýjar þvingunaraðgerðir samþykktar í gær

Í gær samþykkti Evrópusambandið nýjar þvingunaraðgerðir vegna viðurkenningar rússneskra stjórnvalda á sjálfstæði héraðanna Luhansk og Donetsk. Segir í svari Sveins að þvingunaraðgerðirnar beinist gegn eftirfarandi aðilum:

  • 22 hátt settum einstaklingum, þ.m.t. varnarmálaráðherra, og fjórum fyrirtækjum bætt á lista yfir þá sem skulu sæta frystingu fjármuna og landgöngubanns í tilviki einstaklinga. Hér undir eru ráðherrar og hershöfðingjar, lykil viðskiptamenn í bankageiranum og bankar og fjármálastofnanir. Þá var þeim 336 meðlimum Dúmunnar sem greiddu atkvæði með þingsályktun um að viðurkenna sjálfstæði Luhansk og Donetsk bætt á listann.
  • Í öðru lagi beinist aðgerðirnar að fjármálaþjónustu í Rússlandi með því að kostir rússneska ríkisins og rússneska seðlabankans til að fjármagna sig eru takmarkaðir.
  • Í þriðja lagi er um að ræða heildstætt og yfirgripsmikið viðskiptabann á vörur frá héruðunum tveimur Luhansk og Donetsk. Einnig er bann við útflutning á vöru og þjónustu til að þjónusta þessa geira á héruðunum tveim, þ.m.t. að hafa milligöngu um flutning og fjármögnun.

Sveinn bendir á að breytingar á reglugerðum og ákvörðunum ráðs ESB um þvingunaraðgerðir varðandi Úkraínu séu innleiddar sérstaklega í hvert skipti og er innleiðing ofangreindra aðgerða í undirbúningi í utanríkisráðuneytinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert