Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir Sveinn H. Guðmarsson upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins að ljóst sé að hernaður Rússlands gagnvart Úkraínu kalli á miklu harðari og umfangsmeiri þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins en þær sem þegar hefur verið hrundið í framkvæmd.
Þó hafi ekki enn verið greint nákvæmlega í hverju þær muni felast.
„Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur ítrekað lýst því yfir að Ísland muni taka þátt í slíkum aðgerðum til að undirstrika einarða afstöðu Íslands með alþjóðalögum og virðingu fyrir landamærum og lögsögu ríkja,“ segir í svarinu.
Þá segir að íslensk stjórnvöld hafi tekið þátt í alþjóðlegum þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi vegna ólöglegrar innlimunar Rússlands á Krímskaga og aðildar Rússlands að átökunum í austurhluta Úkraínu, sem og stuðningi við vopnaðar sveitir.
Í gær samþykkti Evrópusambandið nýjar þvingunaraðgerðir vegna viðurkenningar rússneskra stjórnvalda á sjálfstæði héraðanna Luhansk og Donetsk. Segir í svari Sveins að þvingunaraðgerðirnar beinist gegn eftirfarandi aðilum:
Sveinn bendir á að breytingar á reglugerðum og ákvörðunum ráðs ESB um þvingunaraðgerðir varðandi Úkraínu séu innleiddar sérstaklega í hvert skipti og er innleiðing ofangreindra aðgerða í undirbúningi í utanríkisráðuneytinu.