Rúta lenti utan vegar á Þrengslavegi fyrr í dag. Lögreglan á Suðurlandi var kölluð til, en engin slys urðu á fólki. Þetta staðfestir Frímann Baldursson, varðstjóri hjá embættinu. Hann segir að enginn hafi slasast og engar skemmdir heldur orðið á rútunni.
„Það er bara verið að bíða eftir að sækja fólkið og draga rútuna upp,“ segir hann, en önnur rúta frá rútufyrirtækinu mun koma og flytja fólkið og annar bíll mun draga rútuna inn á veginn aftur.
Frímann segir að um 30-40 manns hafi verið í rútunni og að það sé nú í góðu yfirlæti inn í rútunni meðan beðið sé.