Það alvarlegasta í Evrópu frá síðari heimsstyrjöld

Þórdís Kolbrún í Alþingishúsinu fyrr í dag.
Þórdís Kolbrún í Alþingishúsinu fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að ekkert jafn alvarlegt hafi gerst í Evrópu frá því í síðari heimsstyrjöld og við erum að verða vitni að núna með innrás Rússa í Úkraínu.

„Ég skal vera alveg heiðarleg þegar ég segi að þetta lítur mjög alvarlega út. Ég er sorgmædd að fylgjast með þessu og þetta eru svo alvarlegir atburðir að ég þori ekki að setja til um hvað muni gerast til viðbótar við það sem þegar hefur gerst,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is. „Það er ekki mikið tilefni til bjartsýni.“

Hún ítrekar fyrri orð sín og ríkisstjórnarinnar um að aðgerðir Rússa séu alvarleg brot á alþjóðalögum. „Við höldum áfram að ítreka og setja hátt og skýrt að við fordæmum þessa háttsemi og fordæmi sem þessi árás er,“ segir hún.

kort/mbl.is

„Ráðast á gildi þess samfélags sem við erum hluti að“

Þórdís telur mikilvægt að Íslendingar og bandamenn séu einhuga og gangi í takti. „Það er verið að ráðast á gildi þess samfélags sem við erum hluti að,“ segir hún og bætir við að það sé samfélag sem hafi verið byggt upp frá seinna stríði og nú sé alvarlega vegið að gildum þess og uppbyggingu.

Spurð út í þátttöku Íslands í efnahagsþvingunum gegn Rússlandi segir Þórdís að Ísland muni stilla sér ákveðið upp með vinum og bandalagsþjóðum. Næstu skref verði rædd í þeim aðgerðum á vettvangi Evrópusambandsins í dag og segir hún að það verði mjög þungar og ákveðnar aðgerðir. „Við munum standa með því.“ Svarar Þórdís því játandi þegar hún er spurð hvort að Ísland muni standa með öllum efnahagsaðgerðum sem ákveðnar verði, jafnvel þótt það væri alsherjar viðskiptabann.

Fyrr í dag var tilkynnt um að Ísland myndi veita eina milljón evra í formi mannúðaraðstoðar til Úkraínu. Þórdís segir að þótt Ísland sé herlaust land séum við virk í Atlantshafsbandalaginu og geri á þeim sviðum það sem landið hefur fram að færa. Þá strandi ekki á Íslandi þegar óskað sé eftir stuðningi við ákvarðanir bandalagsins.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Unnur Karen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert