„Þetta er að fara á versta veg“

Úkraínskir hermenn á ferð í Kænugarði í morgun.
Úkraínskir hermenn á ferð í Kænugarði í morgun. AFP

„Maður þarf að stappa stáli í starfsfólk, það þýðir ekkert að fara á límingunum,“ segir Margeir Pétursson, hluthafi í Bank Lviv, sem búsettur er í borginni Lviv í Úkraínu. Loftvarnarflautur fóru í gang í borginni í morgun vegna innrásar Rússlandshers. Þrátt fyrir það er enginn glundroði í borginni.

„Svo voru fréttir af því að flugvöllurinn hefði verið sprengdur en það er víst rangt sem betur fer. Það voru sprengdir flugvellir hérna í grenndinni sem væntanlega eru herflugvellir,“ segir Margeir.

Hann kom við í bankanum í morgun og tókst að opna útibúin um tíuleytið eftir að fyrirmæli um það hvernig takast ætti á við stöðuna bárust frá seðlabanka landsins.

„Það eru mjög miklar raðir við bankana. Fólk er að ná sér í reiðufé,“ segir Margeir. Þak hefur verið sett á úttektir sem samsvarar um 450.000 íslenskum krónum og hefur verið tekið fyrir gjaldeyrisviðskipti í bili en áður voru þau alveg frjáls. Nægt reiðufé er til staðar sem stendur.

Svakalegt að höfuðborgin skuli sæta árás

Um innrásina Margeir: „Það er ljóst að þetta er að fara á versta veg.“ Á árunum 2014 og 2015 var einnig stríðsástand í Úkraínu þegar Rússar tóku yfir Krímskaga. Aðspurður segir Margeir Úkraínumenn þó síður en svo vera vana ástandi sem þessu. „Þetta eru náttúrulega mikil viðbrigði, að höfuðborgin skuli vera undir árás er alveg svakalegt.“

„Það er náttúrulega búið að loka flugvellinum,“ segir Margeir, spurður um það hvort hann ætli að halda kyrru fyrir. „Síðan er mikil röð á landamærunum. Rafræna kerfið á landamærastöðvunum virkaði ekki í morgun svo það þurfti að afgreiða menn handvirkt sem var mjög hægvirkt. Það þjónar litlum tilgangi að keyra þangað. En ég verð var við það að það er straumur að koma hingað frá öðrum borgum, sérstaklega frá Kænugarði.“

Ástæðan fyrir því er sú að Lviv er staðsett skammt frá Póllandi og hefur verið talin töluvert öruggari en til dæmis höfuðborgin, Kænugarður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert