„Þetta er eitthvað agenda lögreglunnar“

Fjórir blaðamenn hafa réttarstöðu sakborninga vegna rannsóknar málsins. Aðalsteinn lætur …
Fjórir blaðamenn hafa réttarstöðu sakborninga vegna rannsóknar málsins. Aðalsteinn lætur reyna á lögmæti þess. Samsett mynd

Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, hefur hvorki séð síma Páls Steingrímssonar, skipstjóra Samherja, né myndbönd af honum í kynlífsathöfunum sem voru í síma hans. Þetta staðfestir Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Aðalsteins, í samtali við mbl.is. Hann segir lögregluna vita þetta og það sé óumdeilt.

Í gær fór fram munnlegur málflutningur í Héraðsdómi Norðurlands eystra vegna kæru Aðalsteins þar sem hann fer fram á að skorið verði úr lögmæti aðgerða lögreglu að veita honum stöðu sakbornings og kalla hann til yfirheyrslu sem slíkan í tengslum við rannsókn máls er varðar umfjöllun um svokallaða skæruliðadeild Samherja, sem Páll var hluti af. Aðalsteinn er einn fjögurra blaðamanna sem hafa stöðu sakborninga vegna rannsóknar lögreglu á málinu.

Í gær kom þó í ljós, þegar lögregla lagði fram greinargerð sína fyrir dómi, að blaðamennirnir væru grunaðir um að hafa dreift kynferðislegu efni með því að afrita gögn og senda úr síma Páls. Er þar vísað til kynlífsmyndbandanna í símanum. Því hefðu blaðamennirnir fengið réttarstöðu sakborninga. Gunnar segir Aðalstein hins vegar aldrei hafa fengið umræddan síma í hendurnar.

Lögreglan hafi búið til mál upp á eigin spýtur 

„Við lítum ennþá svo á að þetta snúist um störf blaðamanna og hvernig það sé sótt að þeim fyrir að skrifa fréttir um mál sem eiga erindi við almenning. Það liggur alveg fyrir að enginn hefur lagt fram kæru á hendur þeim út af þessum sakargiftum sem nú eru til rannsóknar,“ segir Gunnar.

„Þetta er eitthvað agenda lögreglunnar,“ bætir hann við.

Páll hafi einungis kært byrlun og stuld á síma, en það mál sé upplýst. Aðili nákominn honum hafi viðurkennt að hafa byrlað honum svefnlyf og stolið af honum símanum.

„Þeim spurningum er því enn ósvarað hvers vegna lögreglan er að eltast við þessa blaðamenn í raun og veru.“

Gunnar tekur sem dæmi að ef lögreglan geri húsleit og finni fíkniefni, þá sé eðlilegt að þau séu tekin með við rannsókn máls. Þetta gangi hins vegar töluvert lengra en það.

„Þarna hefja þeir sérstaka rannsókn til að athuga hvort einhver myndbönd í símanum hafi verið afrituð. Málið sem var kært snérist aldrei um það. Það er lögreglan sem hefur búið til upp á eigin spýtur eitthvað slíkt mál,“ segir Gunnar.

Gunnar Ingi, lögmaður Aðalsteins, segir brotið á réttindum hans.
Gunnar Ingi, lögmaður Aðalsteins, segir brotið á réttindum hans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki hægt að sjá að hann sé grunaður um neitt

„Minn umbjóðandi hlýtur að velta því fyrir sér hvers vegna það er og sérstaklega hefur hann ástæðu til þess, þar sem hann hefur jú aldrei séð neinn síma, aldrei séð þennan síma og aldrei neitt sem á honum var, fyrir utan það sem hann skrifaði um og það veit lögreglan. En telur engu að síður rétt að hann hafi réttarstöðu sakbornings út af einhverjum svona málum. Hann telur að hann geti ekki tengst málinu með neinum hætti, nema því sem hann gerði, sem var að skrifa fréttir um skæruliðadeild Samherja.“

Hann áréttar að lögreglan viti þetta og það sé óumdeilt. „Þess vegna fást engar skýringar á því hvers vegna hann þarf að vera með réttarstöðu sakbornings í málinu.“

Gunnar vill ekki slá því föstu að umbjóðandi hans sé orðinn sakborningur í kynferðisbrotamáli, líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum. „Það er ekki hægt að ráða það af greinargerð lögreglunnar. Það er ekki hægt að ráða það af greinargerð lögreglunnar að hann sé grunaður um eitt eða neitt.“

Brotið sé á réttindum Aðalsteins

Gunnar segir nú beðið úrskurðar dómara í málinu en ekki liggur fyrir hvenær hans er að vænta. Falli málið þannig að aðgerðir lögreglunnar verði úrskurðað ólögmætar þá mun Aðalsteinn ekki koma til skýrslutöku sem sakborningur í málinu. „Þetta snýst ekki um að stöðva eitthvað sem lögreglan telur sig þurfa að rannsaka, heldur hvort það sé lögmæt aðgerð að kalla blaðamenn til skýrslutöku sem sakborninga í þessu máli.“

Aðspurður hvort hann hafi einhverja tilfinningu fyrir því hvernig málið fari, segir Gunnar: „Ég held að það hljóti öll rök að hníga í þá átt að það brjóti gegn réttindum hans sem blaðamanns, tjáningarfrelsi hans og frelsi til upplýsingamiðlunar að þurfa að sæta svona inngripi með þessum hætti. Það er varað við því í dómum Mannréttindadómstólsins og dómum Hæstaréttar að lögregla verði að hafa mjög concrete upplýsingar áður en hún snúa sér að blaðamönnum í því skyni að upplýsa einhver sakamál sem tengjast skrifum blaðamanna og störfum þeirra. Því fer fjarri að það sé hægt að kalla það concrete sem lögreglan hefur um einhverja meinta refsiverða háttsemi míns umbjóðanda. Í rauninni hefur hún ekki neitt um það,“ segir hann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert