Tveir karlar á þrítugsaldri voru í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 4. mars vegna árásar í Grafarholti 10. febrúar þar sem skotið var á karl og konu.
Þetta var ákveðið á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar á árásinni, að því er kemur fram í tilkynningu.
Gæsluvarðhaldið yfir mönnunum tveimur átti að renna út í dag.
Fram hefur komið að meiðsli fólksins sem varð fyrir árásinni hafi verið töluverð en hvorugt þeirra er í lífshættu.
Annar maðurinn var handtekinn í húsnæði við Miklubraut morguninn eftir skotárásina þar sem lögregla og sérsveit ríkislögreglustjóra voru með mikinn viðbúnað vegna málsins. Hinn maðurinn var handtekinn eftir hádegið sama dag. Þá hefur verið lagt hald á ökutæki og skotvopn, sem lögreglan telur að hafi verið notað við verknaðinn.
Lögreglan hefur staðfest að tengsl séu á milli árásarmannanna og fórnarlambanna.