„Mér líður auðvitað hræðilega, en þetta kom mér ekki á óvart,“ segir Yuliia Kolomoiets, úkraínsk kona sem er búsett á Blönduósi ásamt íslenskum eiginmanni sínum, um fréttirnar af innrás Rússa í Úkraínu.
Yuliia bjó í Úkraínu árið 2015 þegar átök brutust út þar í landi, sem enduðu með því að aðskilnaðarsinnar tóku völdin á svæðum í Donetsk- og Luhansk-héruðum, og eftir að hafa orðið vitni að þeim atburðum kemur innrás Rússa henni ekki á óvart.
„Ég kalla atburðina 2015 stríð. Þetta voru ekki innlend átök meðal Úkraínumanna, þetta var stríð. Ég sá svo mikinn hrylling á þessu svæði. Ég vann hjá stóru fyrirtæki sem var með höfuðstöðvar í Kænugarði og Donetsk. Starfsmenn í minni deild voru staddir í Donetsk þegar hryðjuverkin hófust. Ég hafði miklar áhyggjur, fréttirnar voru hræðilegar. Við heyrðum ekki frá fólki í marga daga. Vopnað fólk réðst inn í fyrirtækið og stal peningum, tölvubúnaði, launum starfsfólksins,“ segir hún og bætir við að hún hafi orðið fyrir vonbrigðum með það hvernig aðrar þjóðir töluðu um þessa atburði. „Þetta var stríð, þetta voru ekki bara aðskilnaðarsinnar heldur studdu Rússar þessa hryðjuverkamenn allan tímann.“
Yuliia hefur áhyggjur af því að þær efnahagsþvinganir, sem þjóðir sem segjast styðja Úkraínumenn hafa lofað, dugi ekki til. Það hafi ekki dugað til þess að stöðva Rússa hingað til. Úkraínumenn þurfi líka hernaðarstuðning.
„Ég vil að allar þjóðir heims hugsi um þessa hræðilegu innrás og um framtíð alls heimsins. Rússar munu ekki stoppa við Úkraínu. Þetta er hættulegt fyrir allan heiminn.“
Yuliia kemur frá svæðinu sem liggur næst Donetsk-héraði og foreldrar hennar og bróðir búa í tveggja stunda akstursfjarlægð frá Donetsk. Dóttir hennar býr líka í Úkraínu, á svæði sem Yuliia segist enn telja öruggt, hún hafi því mestar áhyggjur af foreldrum sínum og bróður.
„Úkraínska þjóðin er mjög sterk og óttast ekki ástandið. Ég veit að þessi þjóð verður aldrei að þrælum.“