Ísland endurskoði samband sitt við Rússland

Árásir Rússa á Úkraínu hófust í nótt.
Árásir Rússa á Úkraínu hófust í nótt. AFP

Ungir jafnaðarmenn hafa lýst yfir samstöðu og stuðningi við Úkraínu í kjölfar innrásar Rússlands. 

„Árás rússneskra yfirvalda á Úkraínu er árás á heimskipan 21. aldarinnar sem byggir á frjálslyndu lýðræði, mannréttindum, alþjóðasamningum og lögum. Á tímamótum sem þessum þurfa frjálslynd lýðræðisríki að bregðast við með afgerandi hætti –  Ísland má ekki vanmeta hlutverk sitt á alþjóðavettvangi,“ segir í yfirlýsingu Ungra jafnaðarmanna. 

Í yfirlýsingunni hvetja Ungir jafnaðarmenn ríkisstjórn Íslands til að beita sér á alþjóðlegum vettvangi í þágu Úkraínu; hvetja til friðsælla lausna og taka virkan þátt í sameiginlegum alþjóðlegum pólitískum og efnahagslegum aðgerðum gegn rússneskum yfirvöldum.

„Mikilvægt er að Ísland endurskoði samband sitt við Rússland, sér í lagi á vettvangi viðskipta og verslunar. Þá telja Ungir jafnaðarmenn brýnt að Ísland ráðist strax í þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að liðka og flýta fyrir móttöku flóttamanna frá Úkraínu sem nú flýja hrylling og stríð,“ segir í yfirlýsingunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert