Mál Zuista-bræðra hófst á frávísunarkröfu

Lögmaður bræðranna réttir héraðssaksóknara dómskjöl.
Lögmaður bræðranna réttir héraðssaksóknara dómskjöl. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðalmeðferð er hafin í máli bræðranna Einars og Ágústs Arnars Ágústssona, sem eru ákærðir fyrir fjársvik í tengslum við trúfélagið Zuism. Bræðurnir voru hvorugir mættir í dómsal við upphaf aðalmeðferðarinnar. Lögmenn bræðranna báru upp frávísunarkröfu á grundvelli þess að Finnur Þór Vilhjálmsson, héraðssaksóknari væri vanhæfur í málinu. 

Dómari minnti lögmenn á það að brýnt sé að frávísunarkröfur séu bornar fram fyrr í ferlinu. Lögmennirnir sögðu að bræðurnir hafi sjálfir komið auga á atriði sem kom þeim í uppnám og ekki væri hjá því komist að benda á það. 

Samskipti saksóknara við FBI vegna Kickstarter

Halda þeir því fram að héraðssaksóknari hafi haft frumkvæði að því að valda bræðrunum fjárhagslegu tjóni.

Einar og Ágúst Arnar stóðu fyrir söfnunum fyrir nýsköpunarverkefni, tengdu vindmyllu, á bandarísku hópfjármögnunarsíðunni Kickstarter. Þegar um tuttugu milljónir króna höfðu safnast í einni söfnuninni var henni lokað, um svipað leyti og bræðurnir voru til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara.  

Um er að ræða skjal sem sýnir fram á samskipti saksóknara við bandarísku alríkislögregluna, FBI, vegna söfnunar bræðranna á vefsíðunni Kickstarter. 

Þar upplýsti embættið að grunur væri um hugsanlega sviksamlega fjármögnun og fjármálamisferli bræðranna og bauðst til þess að veita FBI gögn vegna málsins ef óskað væri eftir. 

Í framhaldinu var söfnun bræðranna, vegna vindmylluverkefnisins, lokað af vefsíðunni og bakaði það bræðrunum töluvert fjárhagslegt tjón. 

Engin rannsókn á söfnuninni

Af því tilefni sendi lögmaður ákærða erindi þar sem óskað var eftir upplýsingum frá saksóknara. Í svari var því hafnað að rannsókn hafi farið fram á söfnuninni eða í tengslum við hana. 

Lögmenn bræðranna spyrja hvers vegna umrædd samskipti við FBI fóru fram, ef engin sakamálarannsókn fór fram og ekki hafi þá verið grunur um refsiverða háttsemi. 

„Ef það var engin rannsókn, hvers vegna er fulltrúi ákæruvaldsins þá að hlutast til um að valda ákærðu fjárhagslegu tjóni?“

Finnur Þór Vilhjálmsson, héraðssaksóknari.
Finnur Þór Vilhjálmsson, héraðssaksóknari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Upplýsingaskylda embættisins

Saksóknari sagðist hafa séð um samskiptin við FBI, en ákvörðun um þau hafi verið tekin af embættinu á grundvelli upplýsingaskyldu embættisins, ekki honum persónulega.

Þá sé varasamt að túlka lögin þannig að saksóknari sé vanhæfur á grundvelli einhliða óvildar ákærðra einstaklinga í garð saksóknarans. 

„Ég bendi á að hlutverk lögreglu er miklu víðtækara en að vinna að sakamálarannsókn, til að mynda að stemma stigu við afbrotum. Þetta voru því fyllilega málefnaleg samskipti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert