Neita PCR-prófum og tefja fyrir stjórnvöldum

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslensk stjórnvöld eru opin fyrir því að taka á móti flóttamönnum frá Úkraínu. Það sem tefur fyrir því er aftur á móti sá fjöldi hælisleitenda sem er hér staddur sem hefur þegar verið vísað úr landi en neitar meðal annars að fara í PCR-próf. Þetta sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Hann sagði stöðuna á landamærunum vera alvarlega því gríðarlega mikill fjöldi komi hingað og leiti verndar. „Við megum eiga von á því að fólk frá Úkraínu þurfi að leita hingað eins og annað í Evrópu og við erum opin fyrir því. Á sama tíma glímum við við þann vanda að ríkislögreglustjóri setti landamærastöðuna í gær upp á óvissustig,“ sagði Jón og bætti við að mögulega verði viðbúnaðarstigið hækkað enn frekar.

Frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hátt í 200 hælisleitendur í febrúar

Hann nefndi að fólk sem hafi þegar fengið höfnun um vernd hérlendis og ætti þegar að vera farið úr landi safnist hér upp. „Það neitar að fara í svokölluð PCR-próf og við erum hér með á þriðja hundrað manns sem við þurfum að útvega húsnæði og slíkt og Útlendingastofnun er núna alla daga í algjörri neyðarráðstöfun að finna húsnæði fyrir alla þá sem eru hingað að koma,“ greinir hann frá en víða er gerð krafa um að fólk gangist undir PCR-próf áður en það  ferðast til annarra landa. 

Hælisleitendum fjölgaði gríðarlega í febrúar, að sögn Jóns. Í janúar leituðu rúmlega 50 verndar hérlendis en í febrúar verða þeir nær tveimur hundruðum. Þetta er í samræmi við það sem Útlendingastofnun varaði ráðuneytið við að myndi gerast um leið og ástandið skánaði vegna kórónuveirunnar, sagði hann. Þessu þurfi ráðuneytið að bregðast við á einhvern hátt þegar um er að ræða fólk sem hefur þegar hlotið vernd í öðrum löndum.

Kona með tvö börn á gangi eftir að hafa farið …
Kona með tvö börn á gangi eftir að hafa farið yfir landamæri Úkraínu og Slóvakíu og flúið þar með stríðsástandið heima fyrir. AFP

Tugir prósenta frá Venesúela 

Jón bendir í þessu samhengi á að mikill fjöldi hælisleitenda frá Venesúela hafi komið til Íslands að undanförnu. Tugir prósenta sem leiti hér verndar séu þaðan á meðan hlutfall þeirra í Skandinavíu sé innan við eitt prósent. „Við erum að leita leiða til að bregðast við því. Þannig að það er margt sem við þurfum að horfa á hér inn á við til þess að geta lagt lið við blessað fólkið sem er búið að lenda í þessum hörmungum í Úkraínu og við þurfum að vera með okkar dyr opnar eins og aðrar Evrópuþjóðir gangvart á næstu mánuðum væntanlega,“ segir hann.

Aðspurður segir hann engar tölur hafa verið ræddar varðandi fjölda flóttamanna sem gætu komið hingað frá Úkraínu, enda stutt síðan Rússar réðust inn í landið. Núna séu stjórnvöld fyrst og fremst að meta hvað sé hægt að gera gagnvart þeim hælisleitendum sem hingað leita verndar „í mörgum tilfellum, því miður að tilefnislausu“.  

Lagaumgjörðin tefur fyrir 

„Eins og lagaumgjörðin okkar er þá verðum við að taka öll mál til efnislegrar meðferðar og það tefur mjög og gerir allt miklu erfiðara og ekki síst þetta sem ég nefndi áðan að við komum hreinlega ekki fólki úr landi sem hefur farið í gegnum stjórnsýslumeðferð með sín mál og í gegnum úrskurðarnefnd útlendingamála, sjálfstæða úrskurðanefnd,“ segir Jón.

„Svo neitar þetta fólk að fara í til dæmis PCR-próf og við höfum engin úrræði til að bregðast við því og við erum í brýnni þörf fyrir það húsnæði og þá aðstöðu sem þetta fólk hefur í dag. Á meðan það fer ekki annað er það að skapa mikil vandræði með það að taka á móti fleirum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert