Áformað er að reisa nýja og fullkomna bálstofu á Hallsholti við Gufuneskirkjugarð. Hún á að þjóna jafnt trúuðum af öllum trúarbrögðum og trúlausum af öllu landinu.
Bálstofan verður búin tveimur rafknúnum brennsluofnum með fullkomnum hreinsibúnaði sem fjarlægir alla mengun. Hún á að geta annað þörf fyrir bálfarir hér á landi næstu 50 ár. Gert er ráð fyrir að brenndar verði 1.200 til 1.300 kistur á ári en afkastagetan er yfir 2.000 bálfarir á ári. Byggingin verður tæplega 1.200 m2 og þar verður m.a. geymslurými fyrir 40 líkkistur með möguleika á stækkun.
Kirkjugarðaráð hefur kynnt skýrslu sína um nýju bálstofuna og kostnaðargreiningu fyrir innanríkisráðuneytinu og Jóni Gunnarssyni innanríkisráðherra. Undirbúningurinn hófst snemma á þessari öld hjá Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastdæma (KGRP) en þeir hafa rekið fyrstu og einu bálstofu landsins frá árinu 1948. Bálförum hefur fjölgað mikið og á Norðurlöndum eru þær orðnar mikill meiri hluti útfara, ekki síst í borgum. Sömu þróunar verður vart hér en nú eru bálfarir 56% útfara á höfuðborgarsvæðinu og rúmlega 40% útfara á landsvísu. Gert er ráð fyrir að hlutfall bálfara haldi áfram að hækka hér.
KGRP efndu til samkeppni 2004-2005 um hönnun þjónustubygginga og umhverfis þeirra á Hallsholti. Þar áttu að vera starfsmannahús, bálstofa, líkhús og tvö athafnarými. Samkeppni var haldin samkvæmt reglum Arkitektafélags Íslands og bárust 18 tillögur. Verðlaunatillagan kom frá arkitektum Arkibúllunnar, nú A-arkitektum, og var samið við þá. Fyrsti áfangi, starfsmannahúsið, var tekinn í notkun 2008. Efnahagshrunið kom í veg fyrir frekari framkvæmdir þá en nú er ætlunin að taka upp þráðinn á ný.
Arkitektarnir Margrét Leifsdóttir, Hrefna Björg Þorsteinsdóttir og Hólmfríður Ósmann Jónsdóttir hjá A-arkitektum segja að byggingin eigi að geta þjónað öllum landsmönnum óháð trúarbrögðum og lífsskoðunum. Hvergi verða fest upp trúarleg tákn og hægt verður að koma til móts við fjölbreytta útfararsiði. Arkitektarnir kynntu sér nýjar bálstofur í nálægum löndum og uppfærðu hönnunina í samræmi við þróunina. Þeir nutu m.a. ráðgjafar Ole Asp, forstjóra bálstofu í Vestfold í Noregi. Hann er einn fremsti sérfræðingur Norðmanna á þessu sviði. Hönnun nýju bálstofunnar hefur vakið alþjóðlega athygli og verið um hana fjallað í fagtímaritum og bókum eins og t.d. The Phaidon Atlas of 21st Century World Architecture.
Starfsmannahúsið gefur góða hugmynd um það sem koma skal. Grágrýti úr lóðinni var höggið til og notað sem klæðning þeirra hluta hússins sem snúa að starfsmönnum. Í rýmum fyrir aðstandendur eru hvítir bogadregnir veggir. Notuð eru vistvæn og náttúruleg efni og náttúran er nálæg í gegnum gluggana. Myndlistarkonurnar Anna Hallin og Olga Bergmann hönnuðu listskreytingar.
Þrjú athafnarými verða í bálstofuhlutanum. Aðstandendur geta kvatt kistu ástvinar í kveðjurými. Þeir geta síðan verið í áhorfsrými vilji þeir vera viðstaddir þegar kistan er sett í ofninn. Loks munu aðstandendur fá duftkerið afhent í sérstöku rými. Einnig verða kveðjutorg og afhendingartorg við athafnarýmin þar sem aðstandendur geta safnast saman fyrir eða eftir athöfn.
Ýmsar leiðir verða í boði varðandi ráðstöfun öskunnar. Hægt verður að jarðsetja duftker í grafarsvæði Gufuneskirkjugarðs, sem er í göngufjarlægð frá bálstofunni. Þá verður komið upp minningarlundi umluktum veggjum fyrir minningarskildi um látna og hólfum fyrir duftker (kólumbarium). Auk þess verður duftvangur þar sem hægt verður að dreifa ösku í trjálundi. Aðstaða verður til að setja upp spjöld með nöfnum þeirra sem þar fá hinstu hvílu.
VBS verkfræðistofa gerði áætlun um byggingarkostnað nýju bálstofunnar. Þar var stuðst við einingaverð starfsmannahússins sem þegar er risið og voru þau uppfærð til verðlags í dag. Heildarkostnaður byggingarinnar er áætlaður 1.244 milljónir króna. Þar af kosta brennsluofnarnir tveir 260 milljónir.
HLH ráðgjöf gerði rekstraráætlun vegna nýju bálstofunnar. Árlegur rekstrarkostnaður með fjármagnsgjöldum er talinn verða 93 til 116 milljónir króna eftir því hve stór hluti byggingarkostnaðar verður tekinn að láni. Kostnaður á hverja bálför á 1. rekstrarári miðað við 1.050 bálfarir er áætlaður frá 80-100 þúsund krónur eftir því hvert hlutfall lánsfjár var í fjármögnun. Það eru sambærilegar tölur og í nágrannalöndum okkar.
Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri KGRP og formaður Kirkjugarðasambandsins, segir að kirkjugarðaráð leggi áherslu á að eignarhald og rekstur bálstofu verði áfram á vegum opinberra aðila. Reksturinn verði samvinnuverkefni ríkis, sveitarfélaga og kirkjugarða landsins sem setji upp sjálfseignarstofnun um hann. Ekki er talið heppilegt að rekstur einu bálstofu landsins verði í höndum einkaaðila eða hagnaðardrifinna félaga.