Edvardas Baturinas er upphaflega frá Litháen en hefur verið búsettur á Íslandi síðustu 14 ár. Hann er nú staddur í Kænugarði hjá kærustu sinni Katerynu sem er frá Úkraínu. Þau ætla að reyna að bíða af sér mesta umferðaröngþveitið og freista þess svo að komast úr landinu.
Edvardas segir ástandið í Kænugarði mjög spennuþrungið þessa stundina en rússneskar herflugvélar fljúga í kvöld yfir borginni, eins og heyra má af meðfylgjandi myndskeiði.
Edvardas hafði ætlað sér að dvelja stutta stund í Kænugarði en hann og Kateryna voru á leið til Dúbaí með viðkomu í Litháen þar sem Edvardas þurfti að verða sér úti um nýtt vegabréf eftir að hann týndi sínu.
Hann óttast nú að hann sé fastur í Úkraínu og segir hlutina hafa breyst á einni nóttu.
Að sögn Edvardas er fólk að reyna að flýja borgina en allir bílar á leið vestur úr borginni hafa í kvöld setið fastir í um átta klukkustunda umferðarteppu.
Þá segist Edvardas heyra í sprengjum á klukkustundafresti. Stærsta sprengjan hafi verið klukkan fjögur síðustu nótt en þá hafi allir gluggar hússins sem hann dvelur í nötrað.
Sprengingin varð fjóra kílómetra frá húsinu.
Edvardas ætlar sér að reyna að komast aftur til Íslands um leið og tækifæri gefst.
„Ég ætla bara að bíða þangað til það verður minni umferð og reyna að fara landleiðina,“ segir Edvardas og bætir við að hann geti ekki flogið úr landinu þar sem flugvellir í Úkraínu hafa orðið fyrir loftárás.
Að sögn Edvardas mega íbúar Kænugarðs ekki yfirgefa heimili sín á milli tíu á kvöldin og sjö á morgnana.
„Það á eitthvað eftir að gerast í kvöld,“ segir hann og bætir við:
„Allir búast við því að Rússar eigi eftir að gera enn stærri árás í nótt vegna þess að þeir hafa yfirtekið flugvellina okkar og varnarkerfi. Þeir ætla að reyna að taka stjórnina af ríkisstjórninni.“
Hann bendir á að Rússar hafi nú þegar náð Tsjernóbyl sem er í um 80 kílómetra fjarlægð frá Kænugarði.
Hann segist þó ekki skynja það að fólk í borginni sé hrætt en að barnafjölskyldur hafi þó safnast saman í sprengjuskýlum sem séu að finna í öllum húsum.
Þá er Edvardas búinn að pakka niður í töskur því það geti gerst á hverri stundu að sprengjuviðvaranir fari í gang og hann verði að koma sér í skýli.