Öllum sóttvarnaaðgerðum vegna Covid-19 var aflétt á miðnætti, bæði þeim sem voru í gildi innanlands og við landamærin. Því eru nú engar takmarkanir til staðar á daglegu lífi fólks, nema auðvitað þær sem hin hefðbundnu landslög gera ráð fyrir.
Skemmtistaðaeigendur eru þeir sem hafa orðið hvað harðast fyrir barðinu á sóttvarnaaðgerðum rekstrarlega séð og hlakka þeir til að opna takmarkalausar dyr í kvöld.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tilkynnti að takmörkunum yrði aflétt sl. miðvikudag en sóttvarnaaðgerðir hafa verið í gildi meira og minna í um tvö ár.
Einhugur var innan ríkisstjórnar um afléttingu takmarkana og eru afléttingar í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis en hann varpaði fram þremur sviðsmyndum.
Helstu rökin fyrir því að aflétta öllu er að útbreiðsla smita er það mikil að takmarkanir virðast ekki ná að stemma stigu við hana. Þá eru vísbendingar um að það séu umtalsvert fleiri sem hafa smitast en opinberar tölur geta staðfest.
„Það blasir ekki við að takmarkanir skili neinu á þessum tímapunkti,“ sagði Willum við blaðamenn þegar hann tilkynnti um tímamótin.