Verkefnum rignt inn síðan í hádeginu

Björgunarsveitarmenn í Vestmannaeyjum koma hér í veg fyrir að þak …
Björgunarsveitarmenn í Vestmannaeyjum koma hér í veg fyrir að þak af húsi í bænum fljúgi sína leið. mbl.is/Óskar Pétur

Björgunarsveitir á suðvesturhorninu hafa staðið í stórræðum frá því í hádeginu vegna vonskuveðurs sem gengur nú yfir landið. Upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að verkefnum hafi rignt inn en björgunarsveitir aðstoða meðal annars rútu með sjö börn innanborðs í Borgarfirði.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir verkefnin eins og oft áður í svipuðu veðravíti; fokverkefni og vandræði vegna vatnselgs.

Þakplötur og ýmsir lausamunir hafa fokið á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum og þá hafa einhverjar tilkynningar borist um vandræði vegna vatnselgs þar sem niðurföll eru stífluð.

Nánast öllum vegum á suðvesturhorninu hefur verið lokað. Björgunarsveitir aðstoða tíu bíla sem fastir eru uppi á Mosfellsheiði og aðstoða einnig nokkra bíla sem eru fastir á Holtavörðuheiði.

Þá er rúta með sjö börn um borð í vandræðum á Hálsasveitarvegi í Borgarfirði. Hún þverar veginn og hafa björgunarsveitir verið sendar til aðstoðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert