Zuism hafi ekki verið stofnað af léttúð

Ágúst Arn­ar Ágústs­son á leið í dómsal við aðalmeðferð máls …
Ágúst Arn­ar Ágústs­son á leið í dómsal við aðalmeðferð máls héraðssaksóknara. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ágúst Arnar Ágústsson, annar bræðranna sem ákærður er fyrir fjársvik tengdu trúfélaginu Zuism neitar því að félagið hafi verið stofnað af léttúð. Skýrslutökur standa nú yfir í málinu og er Ágúst fyrsta vitnið. 

Ágúst var forstöðumaður trúfélagsins Zuism. Saksóknari beindi að honum ýmsum spurningum um fjármál félagsins en hann bar ítrekað fyrir sig minnisleysi. Skýrslur, ársreikningar og samskipti við stjórnvöld voru lögð fram en Ágúst gat sjaldan veitt skýr svör.

Ágúst kvaðst ekki hafa komið að stofnun félagsins en frumkvæðið hafi komið frá Einari Ágústssyni og Ólafi Helga Þorgrímssyni. Seinna vék Ólafur úr stjórn félagsins en vinslit urðu með þeim félögum, að sögn Ágústar. 

„Hafði það eitthvað með Zuism að gera?“ spurði héraðssaksóknari og svaraði Ágúst þá: „Nei það hafði með þig að gera.“

Kröfu bræðranna um að málinu yrði vísað frá á grundvelli vanhæfis héraðssaksóknara var hafnað í morgun og var Ágústi, að eigin sögn, ofboðið að þurfa að sitja undir spurningum hans.

Trúarleg starfsemi að vernda trúna

Félagið var stofnað árið 2012 og kváðu lög þess þá á um að stjórn yrði kjörin á aðalfundi. Spurður hvort einhver starfsemi hafi farið fram innan félagsins sagði Ágúst: „Við erum fáir þarna, vorum með aðgang að Askalindinni og það voru reglulegir hittingar um hvernig væri hægt að efla starfsemina.“

Spurður hvort það hafi farið fram trúarleg starfsemi spyr Ágúst hvort það sé ekki trúarleg starfsemi að vernda trúna. 

Hann hafði þó, sem forstöðumaður trúfélagsins, gefið saman hjón í tvígang. Þá hafði hann einnig sinnt nafnagift og voru myndbönd af umræddum athöfnum spiluð í dómsalnum.

Kippur í skráningum og breytt skipulag

Árið 2015 birtist áskorun frá sýslumanni á Norðurlandi Eystra í lögbirtingarblaðinu þess efnis að stjórnarmenn og forstöðumaður félagsins gefi sig fram. 

Ágúst segist ekki hafa fengið vitneskju um þetta, en tilkynning hafði verið send Ólafi Helga, sem hafði sagt sig úr stjórn félagsins. 

Aðgerðarsinnar gáfu sig fram við sýslumann og lofuðu því að sóknargjöld yrðu greidd til baka til þeirra sem skrá sig í félagið. Þá skyndilega tók félagatalið kipp og komst upp í 3.000 manns þegar mest lét. 

Ágúst segir að þá hafi þeir bræður ráðið lögmann til þess að ná sambandi við aðgerðarsinnana sem hann vísar til sem „yfirtökuhóps.“ Auk þess hafi þeir viljað kanna réttmæti aðgerða sýslumanns. Úrskurður innanríkisráðuneytisins féll bræðrunum í hag svo þeir náðu aftur stjórn á félaginu. 

Breyttu þeir þá lögum félagsins þannig að stjórn félagsins sé kosin á stjórnarfundi, en ekki aðalfundi. 

Hringdi í fólk til þess að boða  „bjór og bæn.“

Ágúst var spurður út í samkomur félagsins, en á heimasíðunni kom fram að það stæði fyrir „bjór og bæn samkomum.“

Segir hann að þar sem félagið var ekki með varanlegt húsnæði hafi samkomurnar stuðlað að því að efla kjarnann, en þær samanstóðu yfirleitt af þremur til sjö einstaklingum.

Segist hann hafa hringt í fólk til þess að boða það, en aldrei voru birtar auglýsingar með upplýsingum um stað og stund. 

Vísaði á bróður sinn

Þegar Ágúst ákvað svo að stíga niður sem forstöðumaður komu þrír erlendir einstaklingar inn í stjórnina. Þegar lögreglan hafði samband við lögregluna í heimalöndum tveggja þessara einstaklinga kváðust þeir ekki kannast við að hafa nokkurn tíma komið til Íslands og töldu skilríki sín hafa verið misnotuð. 

Ágúst vísaði á bróður sinn í þessu sambandi en hann kvaðst ekki muna sérstaklega eftir því hvort hann hafi átt samskipti við umrædda einstaklinga. 

Þá var hann spurður út í 900 þúsund krónur sem millifærðar voru á hans persónulega reikning, en hann kaus að tjá sig ekki um það að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert