Besta sánan er í Breiðholtslaug

Að mati finnska sendiráðsins er bestu sánuna í Reykjavík að …
Að mati finnska sendiráðsins er bestu sánuna í Reykjavík að finna í Breiðholtslaug. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Sánan í Breiðholtslaug hefur verið valin besta sánan í Reykjavík af sendiráði Finnlands á Íslandi. Til greina komu sánur Sundhallarinnar, Vesturbæjarlaugar, Breiðholtslaugar, Klébergslaugar og Grafarvogslaugar.

Verðlaunin verða veitt í Breiðholtslaug á sunnudaginn en þá verður haldinn svokallaður sánudagur.

Ann-Sofie Stude sendiherra Finnlands segir, í samtali við mbl.is, hugmyndina hafa kviknað þegar hún kom til landsins sem sendiherra árið 2018 en þá gerðist það reglulega að Íslendingar spurðu hana um finnskar sánur.

„Þá áttaði ég mig á því að sánur eru mjög vinsælar á Íslandi en þið hafið auðvitað ykkar eigin hefð að fara í heit böð,“ segir Ann-Sofie og bendir á að böðin tvö, sánabaðið og heita baðið, eigi vel saman.

Ann-Sofie segir að þeim hafi þannig dottið í hug að fara af stað með þessa keppni. Upphaflega var hugmyndin að velja bestu sánuna á landinu en það þótti síðan of stórt svæði.

„Sána er fyrir alla“

Auk þess hafi verið ákveðið að besta sánan skyldi vera sána sem er fyrir allan almenning.

„Vegna þess að sána er fyrir alla. Bæði hér og í Finnlandi geta allir farið í Sánu,” segir Ann-Sofie og bætir við að sigurvegarinn ætti ekki að vera sána sem rukkar háan aðgangseyri heldur sána sem allir hafi aðgang að.

Gott er að slappa af í sánu.
Gott er að slappa af í sánu.

En hvað er það sem gerir sánuna í Breiðholtslaug betri en aðrar sánur? Ann-Sofie segir að sánan sé nógu stór, nægilega heit og hrein. Loftgæði, raki og birta er góð og andrúmsloftið sömuleiðis. Þó segir Ann-Sofie að keppnin hafi verið ansi jöfn en að lokum hafi sánan í Breiðholtslaug sigrað.

Frítt í Breiðholtslaug á sánudaginn

Sánudagurinn er skipulagður af finnska sendiráðinu og ÍTR og verður hann haldinn í Breiðholtslaug á sunnudaginn milli klukkan eitt og fjögur og verður frítt í laugina á meðan. Ætlunin er að bjóða upp á ekta finnska sánaupplifun.  

Kynntar verða hefðir í kringum sánur og hægt verður að fá svör við hinum ýmsum spurningum sem kunna að vakna. Þá mun viðstöddum einnig verða kennt „löylu“ en það er orðið sem Finnar nota yfir það að hella vatni yfir steina í sánu. Auk þess verða birkigreinar á staðnum svo baðgestir geti slegið sig með þeim að finnskum sið.

Á sánudeginum verða til sýnis ýmsar finnskar vörur sem hægt er að skoða og prófa, bæði hreinlætisvörur og textíll. Vörurnar verða þó ekki til sölu.

Baðgestum verður einnig boðið upp á djúsglas eftir að hafa slappað af í sánunni.  

Hægt er að skoða facebook-viðburð sánudagsins hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert