Engin lyfjamengun í 17 sýnum úr íslenskum ám

Sýni voru tekin í Elliðaánum og í fleiri íslenskum ám.
Sýni voru tekin í Elliðaánum og í fleiri íslenskum ám. Mynd: KL

Meira en fjórðungur sýna sem tekin voru úr ám víðsvegar um heim innihélt leifar lyfja í því magni að það var yfir viðmiðunarmörkum um eitrunaráhrif, samkvæmt frétt euronews.green. Á einungis tveimur stöðum sem rannsakaðir voru reyndust ár vera lausar við lyfjaleifar. Þessir staðir voru Ísland og þorp frumbyggja í Venesúela þar sem íbúarnir nota ekki nútímalyf.

Sýnin voru tekin á 1.052 stöðum meðfram 258 ám í 104 löndum í öllum heimsálfum. Við þessi vatnsföll búa yfir 470 milljónir manna. Hér á landi voru tekin 17 sýni úr ám, m.a. úr Elliðaánum.

Styrkur 61 virks efnis frá lyfjum var mældur í vatnssýnunum. Vísindamenn sem stóðu að rannsókninni segja að lyfjamengun ógni umhverfi og heilsu manna á heimsvísu. Sýklalyf sem berast í vatnsföll eru t.d. talin geta aukið líkurnar á að ýmsir sýklar verði ónæmir fyrir lyfjunum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sameinuðu þjóðirnar telja það vera mikla ógn við mannkynið. Þessi efni geta mögulega haft víðtækari áhrif á lífríkið í þessum ám fari styrkur þeirra yfir viðmiðunarmörk.

PNAS (Bandaríska vísindaakademían) birti grein um rannsóknina þann 22. febrúar. Halldór Pálmar Halldórsson, eiturefnavistfræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, er einn höfunda. Hann sagði verkefnið hafa verið einstakt vegna þess að öflun allra sýnanna var samræmd um allan heim og þau voru öll greind í sömu rannsóknastofu. En hvað veldur þessari góðu niðurstöðu fyrir Ísland?

„Skólp frá heimilum hér er almennt ekki leitt út í árnar eins og er gert víða annars staðar í heiminum,“ sagði Halldór. „Fámennið hjálpar einnig til og álagið verður minna en þar sem mannfjöldinn er meiri. Þá er mikilvægt að skólp hér fer að langmestu leyti út í sjó. Þar er þynningin miklu meiri en í ánum og seltan í sjónum hefur einnig áhrif á niðurbrot sumra þessara efna. Viðtaki skólpsins er aðalatriðið í þessu sambandi.“

Niðurstöðurnar á heimsvísu endurspegla efnahag og lífsstíl hinna ýmsu þjóða. „Ástandið er verra þar sem er lítil eða engin skólphreinsun og skólp er jafnvel leitt ómeðhöndlað beint út í árnar.

Svo sýnir rannsóknin líka að leifar t.d. hjartalyfja og þunglyndislyfja mælast í meiri mæli þar sem er velmegun og lífsstílstengdir sjúkdómar eru algengari en hjá fátækari þjóðum,“ sagði Halldór.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert