Fjórtán sinnum lokað á þessu ári

Oft hefur þurft að loka.
Oft hefur þurft að loka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkrir helstu þjóðvegir landsins voru lokaðir um tíma í gær, svo sem Hellisheiði, Þrengsli, Sandskeið og Mosfellsheiði. Einnig vegir á Vesturlandi, fyrir norðan og austur á landi. Hellisheiði var í gær lokað í 14. skiptið á árinu. Sjaldan eða aldrei áður hafa lokanir á þeirri leið á fyrstu mánuðum ársins verið jafn margar og nú, segir Kristinn Þröstur Jónsson, deildarstjóri umferðarþjónustu hjá Vegagerðinni.

Á árunum 2012-2022 hefur Hellisheiði verið lokað 120 sinnum. Oftast gerðist slíkt árið 2020, alls 23 sinnum. Árið 2021 aðeins í tvígang, enda veðrátta þá mild og vetur snjóléttir.

„Þegar skyggni er aðeins örfáir metrar og fyrirstöður á vegi segir sig sjálft að vegum er lokað. Ákvörðun um slíkt taka eftirlits- og mokstursmenn úti á vegunum,“ segir Kristinn Þröstur. „Bílar, jafnvel illa búnir, sem sitja fastir geta verið meiri fyrirstaða en færð. Bíll sem var fastur í Hveradalabrekku nú í vikunni tafði snjóruðning svo umferðin var stopp í fimm klukkutíma. Til að halda slíkum vandamálum í lágmarki er gripið til lokana með póstum þar sem björgunarsveitarfólk stendur vaktina sitt hvorum megin.“

Gildandi regla um mokstur á Hellisheiði er að leiðin skuli rudd og henni haldið opinni allan sólarhringinn. Þó má gera hlé þegar umferð fer í 40 bíla eða færri á klukkustund, eins og gerist stundum fyrri hluta nætur.

Kurr hefur verið meðal Hvergerðinga vegna lokana á Hellisheiði. Nýlega bókaði bæjarstjórn um mikilvægi þess að leiðinni sé haldið opinni sé þess nokkur kostur; svo mikil umferð sé milli Suðurlandsundirlendisins og höfuðborgarsvæðisins á vegum fyrirtækja og vegna ferðaþjónustu og atvinnu- og skólasóknar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert