Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist lengi hafa verið þeirrar skoðunar að leita skuli leiða til að fækka ríkisstofnunum og jafnvel mætti gera kröfu um lágmarksstærð þeirra.
Þetta sagði hann að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum í gær, spurður út í nýlega skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í henni kemur fram að þrátt fyrir að stofnunum hafi fækkað talsvert undanfarin ár sé enn tækifæri til samstarfs, samvinnu og sameininga.
„Frumkvæði að þessu þarf að vera fyrst og fremst inni í einstaka ráðuneytum en á vettvangi ríkisstjórnarinnar höfum við tækifæri til að samstilla megináherslur,“ sagði Bjarni um fækkun stofnana.
Hann sagði ríkisstjórnina eiga eftir að vinna úr þeim ábendingum sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í framhaldinu geti ráðherrar vonandi komið af stað „einhverri hreyfingu“.
Bjarni nefndi sameiningu ríkiskattstjóra og embættis tollstjóra annars vegar og Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins hins vegar sem góð dæmi um árangur í þessum efnum. „En ég er engu að síður ennþá þeirrar skoðunar að við erum með of margbrotið stjórnkerfi hjá okkur í þessu samhengi.“