Það er aldrei of seint að láta drauma sína rætast eða taka nýja stefnu í lífinu á miðjum aldri. Það hefur lögreglufulltrúinn Ragnar Jónsson sannarlega gert undanfarin ár en hann hefur verið að færa sig hægt og rólega út á braut kvikmynda, heimildarmynda og glæpasería sem ráðgjafi, framleiðandi eða handritshöfundur. Jafnvel má sjá honum bregða fyrir á skjánum í minni hlutverkum. Ragnar er þó langt frá því hættur að sinna vinnu sinni sem lögreglufulltrúi en hann er einn tveggja blóðferlasérfræðinga landsins og þarf oft að fara á vettvang morða, sjálfsvíga og slysa.
Ragnar byrjaði í lögreglunni árið 1990 og í tæknideildinni árið 2001 og á því að baki yfir þriggja áratuga feril hjá lögreglunni en hann fetaði „óvart“ í fótspor föður síns, lögreglumannsins Jóns Péturssonar í Stykkishólmi, nokkuð sem hafði ekki verið á dagskrá.
„Ég held að pabba hafi þótt nóg um en þegar ég var í Versló gerði ég margt annað en að kíkja í námsbækur og hann vildi skóla strákinn aðeins til og sýna honum að lífið væri ekki bara dans á rósum,“ segir Ragnar sem fékk þá sumarstarf í lögreglunni.
„Þá kynntist ég annarri hlið mannlífsins. Ég vann svo hjá herrafataverslun þann vetur en fann að hitt togaði í mig, þetta ákveðna frelsi að vera í bíl að keyra um og að vita aldrei hvað dagurinn byði upp á. Maður var líka ungur og spennusækinn á þeim tíma, en þetta var hörku skóli,“ segir Ragnar en um aldamótin kviknaði áhuginn á blóðferlafræðum.
Líkist starf þitt því sem sést í þáttum á borð við CSI, Dexter og NCIS?
„Að einhverju leyti má segja það. Við förum að safna upplýsingum en í þessum amerísku þáttum lenda þau alltaf í einhverjum svaka hasar líka. Þegar við komum á staðina eru lögreglumenn komnir á undan og búnir að tryggja vettvanginn,“ segir Ragnar og nefnir að mikil þróun hafi átt sér stað í notkun DNA-sýna sem eru í dag mjög nákvæm.
„Vettvangur þarf alltaf að vera tryggilega öruggur og ef enginn hefur gengið þar um getum við fundið ýmislegt,“ segir Ragnar og segir þau hjá tæknideildinni nota ákveðin tæki og vökva sem nefnist lúminol til að sjá blóðbletti sem hafa verið þvegnir í burtu.
Ragnar segir að mörg málanna taki á sig andlega, enda sér hann oft afleiðingar harmleikja eða skelfilegra voðaverka.
„Vissulega eru mál sem sitja í kollinum og maður vildi vera laus við þær myndir. En styrkur deildarinnar er mikill og við ræðum mikið saman. Ef maður veit að maður hefur gert sitt besta, getur maður farið sáttur að sofa. En það hafa komið mál sem halda fyrir manni vöku,“ segir hann.
Talið berst að sjónvarpsþátta- og kvikmyndaáhuganum, en Ragnar hefur verið með puttana í ýmsu, nú síðast var hann einn handritshöfunda Svörtu sanda, glæpaseríu sem er nú að gera það gott úti í heimi. Ragnar er nýkominn heim frá Berlinale, stórri sjónvarpsþáttahátíð í Berlín, en þar voru tveir fyrstu þættirnir sýndir.
„Í mínum villtustu draumum átti ég ekki von á því að vera kominn yfir fimmtugt og vera kominn á kvikmyndahátíð. En í grunninn er ég bíónörd og var það sem krakki. Ég fór mikið í bíó og safnaði kvikmyndaprógrömmum,“ segir Ragnar.
„Svo erum við í löggunni alltaf að skrifa og endursegja hvað gerðist yfir daginn. Í raun sest maður þá niður eins og blaðamaður og skrifar grein eða samantekt. Það var ekki eins mikið stökk og ég hélt að fara úr því yfir að skrifa handrit, þótt leikreglurnar séu aðrar,“ segir hann og nefnir að fyrsta verkefnið hans í heimi kvikmynda var árið 2006 þegar hann var ráðinn sem ráðgjafi við mynd Baltasars Kormáks, Mýrinni.
„Svo bað Baltasar okkur tæknikallana að leika tæknimenn lögreglunnar því þá þurfti hann ekki að þjálfa leikara í þau hlutverk. Þannig að ég og félagi minn enduðum á að vera ráðgjafar og leika í myndinni þegar beinagrind var lyft upp úr gólfi. Þar byrjaði minn ferill sem leikari og síðan hef ég oft sagt að ég sé færanleg sviðsmynd. Oftast nær sem lögga,“ segir hann og brosir.
Ragnar steig svo skrefinu lengra þegar hann hóf að skrifa handrit að Svörtu söndum en þá hafði hann lengi gengið með hugmyndina í maganum.
„Ég hugsaði um hvernig seríu ég myndi virkilega vilja horfa á. Ég hef mjög oft farið í rannsóknir á Suðurlandi og þá reynir maður gjarnan að undirbúa sig á leiðinni. Einhvern tímann var ég að fara suðurströndina að skoða vettvang slyss og fór að hugsa; „hvað ef þetta er ekki slys?“ Þar kviknaði eiginlega hugmyndin að Svörtu söndum. Ég hitti svo leikkonuna Aldísi Amah þegar ég var að þjálfa hana í hlutverk í Brot og við áttum gott spjall saman. Hún spurði mig hvort ég væri að skrifa eitthvað sjálfur og ég sagðist vera með hugmynd að seríu um ungan lögreglumann sem færi út á land. Hún sagði þá; „hvað ef það væri kona?“ Ég sagði henni að þá yrði hún að skrifa þetta með mér. Hún tók slaginn,“ segir Ragnar og segir þau hafa gert alvöru úr þessu. Síðar hittu þau Baldvin sem kom þeim í samband við Óttar Andrésson hjá Glassriver sem hjálpaði þeim að þróa söguna og að lokum hafi Baldvin komið inn í teymið en byrjað var að skrifa árið 2019.
Tökur fóru fram á árinu 2021 og var Ragnar á setti í mörgum senunum. Eitt skipti þegar hann var ekki þar fékk hann símtal sem hann gleymir aldrei.
„Ég man eftir einu fallegasta símtali sem ég hef fengið um ævina, en það var þegar Aldís hringdi í mig af tökustað og sagði við mig: „Ertu að átta þig á því að það eru eitt hundrað manns í vinnu við það að skapa hugverkið okkar. Ertu að fatta það?“ Ég þurfti bara að setjast niður og hugsaði, vá, þetta er að gerast. Og það í miðjum heimsfaraldri. Ég bið ekki um meir,“ segir hann og segir það hafa verið stórkostlegt að fá að koma á settið.
„Það hafði verið smíðuð lögreglustöð og spítali og fyrir litla kvikmyndastrákinn í mér að fá að sjá þetta var ólýsanleg tilfinning.“
Fékkstu að leika lítið hlutverk í Svörtu söndum?
„Já, tæknideildarlöggu,“ segir hann og hlær.
Ítarlegt viðtal er við Ragnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina og einnig er hann í Dagmálsþætti sem birtist á mánudag.