Í dag eru fimm ár liðin frá því að ljósmyndarinn Gunnar Freyr tók einstaka vetrarmynd af Hallgrímskirkju aðfaranótt 26. febrúar árið 2017. Það sem hann vissi ekki á þeim tíma var að ljósmyndin ætti eftir að breyta lífi hans.
Mynd Gunnars sýnir par haldast í hendur fyrir framan kirkjuna á einni snjóþyngstu nóttu sem þá hafði sést í Reykjavík í um hundrað ár.
„Það var allt svo myndvænt þessa nótt. Hún var líka eitthvað svo rómantísk,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is.
Gunnar Freyr, 35 ára, var á þessum tíma tiltölulega nýfluttur til Íslands frá Danmörku og starfandi sem endurskoðandi, en hann er með meistaragráðu í viðskiptafræði og endurskoðun frá viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn. Hann segist þó ekki hafa fundið sig á þeim starfsvettvangi og að hann hafi lengi haft þann draum að gera ljósmyndun að atvinnu sinni.
„Ég var bara ekki á réttri hillu. Ég var svosem alveg góður starfskraftur en þetta var ekki eitthvað sem kom náttúrulega til mín. Þegar maður er að velja sér braut í lífinu veit maður oft ekkert hvað maður vill eða hvers maður er megnugur,“ segir hann.
„Áður en við fjölskyldan fluttum til Íslands fórum við í heimsreisu og það var eiginlega í þeirri ferð sem áhugi minn fyrir ljósmyndun kviknaði fyrir alvöru. Svo heillaðist ég líka svo af hugmyndinni um að geta unnið hvaðan sem er og vera minn eiginn herra. Mig dreymdi um að hafa meira frelsi.“
Hélt Gunnar þó að hann þyrfti að vera menntaður í ljósmyndun til að geta titlað sig sem „alvöru ljósmyndara“, að eigin sögn. Ákvað hann því að skrá sig í ljósmyndaskólann haustið 2016, stuttu eftir að hann og konan hans, Katarzyna Dygul, eignuðust sitt fyrsta barn saman.
„Ég þjáðist illa af svikaraheilkenninu og hélt ég gæti ekki orðið ljósmyndari nema vera búinn að fara í skóla. Mig vantaði bara eitthvað sjálfstraust. En þar sem ég varð pabbi á svipuðum tíma ákvað ég á endanum að hætta í náminu.“
Það var svo eina örlagaríka nótt, þremur mánuðum eftir að frumburðurinn fæddist, sem Gunnar vaknaði upp úr værum svefni við skrítið hljóð úr garðinum heima sér í miðbæ Reykjavíkur, en hann hafði þá verið einn heima þar sem Katarzyna var erlendis með Markúsi syni þeirra.
„Ég heyrði tré brotna fyrir utan gluggann hjá mér og við það ákvað ég að fara á fætur og líta út um gluggann. Þá sá ég að snjónum kyngdi niður og allt var gjörsamlega á kafi,“ segir hann.
„Á þessum tíma átti ljósmyndun hug minn allan og vildi ég grípa hvert tækifæri sem gafst til þess að ná góðri ljósmynd, svo ég dreif mig í föt og hljóp út með myndavélina mína.“
Gunnar hafði þá nýlega fjárfest í sinni fyrstu alvöru myndavél sem hann segir hafa komið sér vel við þessar aðstæður enda sé það kúnst að ná góðum myndum í myrkri og snjó.
„Þegar ég kom út sá ég almennilega hvað þetta var geggjað. Það var blankalogn, bærinn sofandi og allur snjórinn því ósnertur. Þegar það er svona mikill snjór og enginn vindur þá verður allt svo hljótt. Það var eitthvað svo sérstök kyrrð yfir öllu sem erfitt er að lýsa. Allur hávaðinn sem vanalega umlykur allt í kringum mann hvarf alveg.“
Fullur innblásturs hljóp Gunnar svo um borgina í húmi nætur og myndaði vetraríkið í bak og fyrir með nýju myndavélinni sinni.
„Það var allt svo myndvænt þessa nótt. Hún var líka eitthvað svo rómantísk. Þetta var um helgi svo það var eitthvað af fólki á gangi, hönd í hönd, eflaust á leið sinni heim eftir að hafa skemmt sér í bænum.“
Það var svo þegar Gunnar var á gangi upp Skólavörðustíginn þegar hann kom auga á ljósmyndatækifæri sem hann ætlaði ekki að láta sér úr greipum renna.
„Ég sá þetta par ganga yfir götuna og áttaði mig á því að eftir nokkrar sekúndur myndu þau standa beint fyrir framan kirkjuna, svo ég stillti upp myndavélinni og skaut. Þau stóðu þarna eitt andartak og svo voru þau bara farin. Þetta var svona augnablik sem kemur líklegast aldrei aftur.“
Gunnar var að eigin sögn svo ánægður með myndina að hann ákvað að birta hana strax á samfélagsmiðlinum Instagram þegar hann kom aftur heim undir morgun.
„Mér fannst mikilvægt að koma myndinni út áður en fólk vaknaði og færi að deila allskonar myndefni af þessu veðri. Myndin fékk strax rosalega góð viðbrögð.“
Svo hafi hann lagst aftur til svefns, enda búinn að vera að vera taka myndir alla nóttina og klukkan að ganga átta um morguninn þegar hann kom heim.
Gunnar óraði þó ekki fyrir þeirri athygli sem myndin átti eftir að vekja á meðan hann svaf en viðbrögðin stóðu ekki á sér þegar hann vaknaði aftur seinna um daginn.
„Það biðu mín einkaskilaboð á Instagram frá einhverri ókunnugri konu sem sagðist hafa séð myndina og vildi taka við mig viðtal um hana fyrir BBC. Fyrst hélt ég að þetta væri fake en hugsaði að ég hefði engu að tapa á því að segja já svo ég gerði það. Svo kom bara í ljós að hún var raunverulega að vinna fyrir BBC.“
Viðtalið við Gunnar var svo birt ásamt myndunum hans á vef BBC sama dag, e. 27. febrúar 2017, en eftir það segist Gunnar ekki hafa haft undan við að svara fyrirspurnum annarra blaðamanna sem vildu ýmist fá að taka við hann viðtal eða birta myndirnar hans.
„Þetta var ljósmyndin sem breytti lífi mínu. Það voru fjölmiðlar allstaðar að úr heiminum sem skrifuðu um veðrið þessa nótt og deildu myndunum mínum. Svo varð þetta líka viral á Reddit og Hallgrímskirkja fékk leyfi til þess að birta myndina af kirkjunni á heimasíðunni sinni.“
Þá fangaði myndin einnig athygli forsvarsmanna ljósmyndavöruframleiðandans Canon sem settu sig í samband við Gunnar í kjölfarið og buðu honum tækifæri sem hann gat ekki hafnað.
„Þeir spurðu mig hvort ég væri til í samstarf með þeim sem endaði svo á því að ég varð einn fulltrúi Canon á Norðurlöndunum.“
Stuttu eftir að myndin fræga fór á flug hætti Gunnar að vinna sem endurskoðandi og helgaði líf sitt ljósmyndun. Þannig varð draumurinn hans um að verða ljósmyndari að atvinnu að veruleika yfir nóttu.
„Þarna fékk ég staðfestingu á því að ég væri að gera eitthvað sem gæti skilað einhverju. Þetta sýndi mér að það gæti virkilega orðið eitthvað úr þessu hjá mér.“
Síðastliðin fimm ár hefur hann svo unnið að fjölmörgum ljósmyndaverkefnum í samstarfi við hin ýmsu fyrirtæki og stofnanir, bæði hér heima og erlendis. Skemmtilegustu ljósmyndaverkefnin hafa verið þau sem hafa leyft honum að kynnast Íslandi betur, segir hann inntur eftir því.
„Mér finnst það mjög dýrmætt því þegar ég byrjaði fyrst að ferðast um Ísland og opnaði Instagram-reikninginn minn, Icelandic_Explorer, var hugsunin svolítið að ég væri Íslendingur að upplifa landið í fyrsta skiptið og kynna það fyrir öðrum í gegnum ljósmyndirnar mínar.
Svo eru það almennt bara verkefnin þar sem ég fæ að vera úti í náttúrunni, finna ró, komast í flæði og gleyma mér alveg í ljósmynduninni. Þá er ég alveg eins og fiskur í vatni.“
Spurður hvaða lærdóm Gunnar hefur dregið af reynslu sinni síðastliðin fimm ár segir hann það m.a. vera að treysta sjálfum sér meira og að fylgja innsæinu.
„Maður er svo gjarn á að finnast maður þurfa alltaf að vita allt fyrir fram en stundum er maður að gera eitthvað og veit ekkert af hverju eða hvað það mun leiða af sér. Hafa trú á sjálfum sér og fylgja innsæinu því innsæið og æðri máttur tala oft saman.“
Ertu með einhver skilaboð til þeirra sem vilja langt í ljósmyndun?
„Vera dugleg að koma sér í réttar aðstæður, hafa gaman af þessu og vera tilbúin. Því það að ná góðri mynd getur bara verið spurning um nokkrar sekúndur. Þá er líka gott að hafa græjur sem virka þegar maður þarf á þeim að halda. Í þessum geira skiptir svo ekki síður máli að vera duglegur að koma sér á framfæri sjálfur, því það er enginn að fara gera það fyrir mann.“
Myndin fræga er þó ekki það eina sem hefur breytt lífi Gunnars á síðastliðnum fimm árum en sem áður sagði varð hann líka faðir og á í dag þrjá unga syni, þar af eitt sett af tvíburum. Síðastliðið sumar urðu svo óvænt veikindi í fjölskyldunni sem Gunnar segir hafa fengið hann til að hugsa hlutina upp á nýtt.
„Annar tvíburinn okkar, Simon, veiktist og við héldum að hann væri að fara deyja. Hann fékk köst þar sem hann hætti að anda, datt niður og varð alveg blár á litinn. Þegar það gerðist fyrst var konan mín ein með syni okkar og ég úti á landi að mynda.“
Eftir fjölda læknisheimsókna og langt greiningaferli kom í ljós að þarna væri líklegast um einhverskonar ungbarnaflogaveiki að ræða, að sögn Gunnars.
„Síðustu sex mánuði hefur lífið svolítið snúist um þetta, að komast í gegnum þetta greiningaferli og aftur á fætur sem fjölskylda. Þetta setti lífið okkar svolítið á pásu.
Nú er ég að reyna finna út úr því hvernig ég get haldið ljósmyndaævintýrinu mínu áfram án þess að þurfa vera of langt í burtu frá fjölskyldunni minni og þroskast aðeins í hlutverki mínu sem faðir.“
Gunnar segir þetta upphafið af nýjum kafla í lífi fjölskyldunnar og þrátt fyrir að síðastliðnir mánuðir hafi reynst erfiðir líti hann björtum augum til framtíðar.
„Maður er fimm ár í háskóla og nú eru fimm ár liðin frá því ég tók myndina af Hallgrímskirkjunni. Eftir fimm ár þarf maður stundum að breyta til. Ég hef allavega lagt áherslu á það. Ég ætla ekki að gefa ljósmyndaævintýrið upp á bátinn alveg strax en nú þarf ég svolítið að laga það að breyttum aðstæðum.“
Fleiri ljósmyndir eftir Gunnar má sjá á vefsíðu hans Icelandic Explorer og á Instagram.