Markmiðið að byggja bænahús

Einar Ágústsson, sem sætir ákæru fyrir fjársvik í tengslum við …
Einar Ágústsson, sem sætir ákæru fyrir fjársvik í tengslum við trúfélagið Zuism. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum undir stöðugum árásum fjölmiðla og sáum okkur ekki fært að sitja áfram í stjórn þess, þá var einnig búið að skaða félagið þannig að erfitt var að finna fólk til að sitja í stjórn,“ segir Einar Ágústsson sem ákærður er fyrir fjársvik í tengslum við trúfélagið Zuism. 

Eru þetta svör hans við spurningum héraðssaksóknara um það hvers vegna brugðið var á það ráð að fá stjórnarmenn inn í félagið í gegnum vefsíðuna upwork.

Tveir einstaklinganna sem átti að taka inn í stjórnina eru búsettir í Slóvakíu. Þeir kannast ekki við það að hafa samþykkt stjórnarsetu í Zuism en Einar kveðst hafa verið í góðri trú um að þeir væru upplýstir af lögmanni sem hann var í samskiptum við.

Sáu ekki fyrir sér að stjórnin skipti máli

Ætlunin var að sögn Einars, að lægja öldurnar í kringum félagið. Ráða átti nýjan forstöðumann í gegnum Capacent ráðningarfyrirtæki, sem myndi halda uppi daglegum rekstri trúfélagsins samkvæmt upprunlegum tilgangi þess. 

„Við sáum ekki fyrir okkur að stjórnin skipti máli, nema til að uppfylla lagaleg skilyrði.“

Á þessum tíma hafði lögum félagsins nýlega verið breytt þannig að stjórn tæki allar meiriháttar ákvarðanir og að stjórn væri kjörin á stjórnarfundi. 

„Átti þetta erlenda fólk að ráða einhverju um stjórn félagsins?,“ spurði héraðssaksóknari, en Einar svaraði því með því að benda á að ætlunin hafi hvort eð er ekki gengið í gegn. 

Einar ásamt lögmanni sínum, Jóni Bjarna Kristjánssyni.
Einar ásamt lögmanni sínum, Jóni Bjarna Kristjánssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einar kveðst aðhyllast Zuism

Einar segist hafa kynnst Zuism í Bandaríkjunum. Hann hafi kynnt Ólaf Helga Þorgrímsson, félaga sinn, fyrir trúnni. Móðurkirkja trúarinnar er í Delaware, en Einar segist hafa tengsl við hana. 

Einar kveðst trúaður og að hann aðhyllist Zuism. Um er að ræða fjölgyðistrú, Einar taldi upp guðina sem hver og einn tilheyrði vissu svæði. Samkomurnar „bjór og bæn“ fólu meðal annars í sér að fara með aldagamalt kvæði um bjóruppskrift.  

Ólafur vék úr stjórn félagsins og eiginkona Einars kom inn í hans stað. Spurður hvort hún hafi verið virk í starfinu svaraði Einar á þá leið að virkni geti verið persónubundin. „Þú þarft ekki að fara í messu þó þú sért kristinn.“

Endurgreiðsla ekki í takt við tilgang félagsins

Varðandi þá hugmynd að endurgreiða sóknargjöld, segir Einar að sú hugmynd hafi komið frá yfirtökuhópnum, sem lýsti sig sem stjórn þegar sýslumaður birti áskorun þess efnis.

 „Þessi nýja stjórn var að gefa út loforð og skuldbinda félagið um hluti sem voru ekki í takt við tilgang félagsins.“

Náðu bræðurnir Einar og Ágúst aftur stjórn félagsins og sótti Zuism í framhaldinu um að fá úthlutaða ókeypis lóð fyrir trúariðkun sína. 

Fjármagn í eigin vasa

Um 3.000 manns voru skráðir í trúfélagið Zuism og varð það til þess að félagið fékk um 85 milljónir íslenskra króna frá ríkinu í formi sóknargjalda.

Einar millifærði 1,7 milljónir af reikningi Zuism trúfélagsins, yfir á eigin reikning. Til skýringar á því segir hann að eitthvað hafi verið verktakagreiðslur en þá hafi félagið einnig staðið í talsverðri skuld við þá bræður. „Við greiddum fyrir baráttu félagsins úr eigin vasa.“

Vaxtalaus og veðlaus lánalínusamningur

Þá voru 46,4 milljónir millifærðar til félagsins EAS ehf. Á fundi, dagsettum 10. október 2017,  voru samþykkt kaup Zuism á EAF ehf.. Síðarnefnda félagið átti þá að sjá um varðveislu og ávöxtun fjármuna en að auki var gerður vaxtalaus og veðlaus lánalínusamningur milli Zuism og EAF. 

Einar sagðist hafa talið að slíkt fyrirkomulag væri öruggast til að tryggja það að fjármagnið gæti runnið til baka með skömmum hætti ef trúfélagið fengi afhenta lóð eða finndi húsnæði sem það vidi festa kaup á.

Símgreiðslur og skattahagræðing í Bandaríkjunum

Þá framkvæmdi Einar tvær símgreiðslur frá EAF yfir á eigin reikning hjá bandaríska bankanum JP Morgan. Hann segir þessar millifærslur hafa verið vegna stofnunar og innborgun á hlutafé í félaginu Threescore LCC. Héraðssaksóknari sagði að Einar væri einn skráður eigandi umrædds félags en Einar mótmælti því og sagði að EAF væri eigandi þess. 

Fyrir lá samningur milli Einars og Interactive brokers þannig að peningurinn var millifærður inn á Threescore LCC með milligöngu Interactive brokers. Var það gert vegna skattalegs hagræðis í Bandaríkjunum, en Threescore er samlagsfélag og þurftu því greiðslurnar að berast í formi framlags einstaklinga. 

Inntur eftir því hvaða tengsl þessar færslur fjármagns höfðu við starfsemi félagsins, sagði Einar að markmiðið hafi verið að ávaxta fjármunina sem best svo seinna væri hægt að kaupa eða byggja bænahús og fá þannig aðstöðu fyrir trúfélagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert