Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt en alls voru 68 mál skráð hjá henni á tímabilnu 17:00 – 05:00. Þrír gista fangageymslur eftir nóttina að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Þar kemur fram að níu ökumenn hafi verið teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna og eitthvað hafi verið um hávaða tilkynningar og aðstoð vegna ölvunar.
Karlmaður var handtekinn í Hlíðahverfi í nótt vegna líkamsárásar og var hann vistaður í fangaklefa þar til hægt verður að taka af honum skýrslu vegna málsins.
Tveir aðrir voru handteknir í Hafnarfirði vegna gruns um líkamsárás. Þeir voru vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar.