Þeir voru ansi háværir litlu sætu hundarnir hennar Gerðar Huldar Arinbjarnardóttur þegar blaðamann bar að garði. Tveir hvítir hrokkinhærðir smáhundar, annar með gosbrunn í hárinu, vildu taka gestinn út áður en þeir sættu sig við þessa innrás. Eftir að hafa gengið úr skugga um að þarna væri ekki óvinur á ferð datt allt í dúnalogn.
Gerður hefur komið sér vel fyrir í grænum sófa. Hún er í þægilegum fötum, ómáluð með hárið í hnút. Við höfum nóg að tala um, en Gerður, sem kennd er við fyrirtækið sitt Blush, var valin markaðsmanneskja ársins 2021, yngst kvenna til að hljóta þann titil. Hún segist vera hissa, ánægð og þakklát.
Fyrirtækið Blush var stofnað 2011 og gengur nú afar vel en Gerður lætur ekki staðar numið við innflutning hjálpartækja ástarlífsins því hún er sjálf að hanna sína eigin línu undir nafninu Reset.
„Ég elska að hanna nýjar vörur og hafa fjórar þeirra komið út nýlega og von er á þremur næsta sumar. Línan er hugsuð fyrir Evrópumarkað en við erum byrjuð að selja hérlendis og hefur það gengið alveg fáránlega vel. Pælingin með Reset er sú að þú ert að endurstilla orkuna þína þegar þú stundar kynlíf eða sjálfsfróun,“ segir Gerður og nefnir að nýju Reset-vörurnar séu í dag þær vinsælustu í versluninni.
Hvernig byrjaði þetta allt saman?
„Ég byrjaði rúmlega tvítug að hugsa um að mig langaði að stofna mitt eigið fyrirtæki. Ég var ekki með neina hugmynd en langaði að flytja eitthvað inn. Einn daginn kemur til mín vinkona sem segist vilja sýna mér dálítið sem hún hafði verið að kaupa sér. Hún hleypur inn í herbergi og kemur til baka með eitthvað í hendinni og sýnir mér. Ég spyr hvað þetta sé og hún svarar að þetta sé egg. Ég sagði: „Ertu að sýna mér kynlífstækið þitt?“ Mér fannst þetta bara ógeðslegt. Hver gerir svona? En á sama tíma sá ég hvað þetta var fallegt; þetta var egg sem var með gyllingu og allt annað en þetta snúruegg sem ég átti,“ segir Gerður og segist hafa orðið forvitin.
„Ég fór í verslun hér á höfuðborgarsvæðinu til að kaupa svona og á móti mér tekur fullorðinn karlmaður og ég man hvað mér fannst það óþægilegt. Þarna voru klámmyndir út um allt og vörur þarna með myndum af klámstjörnum. Ég tengdi ekkert við þetta og fannst ég smá skítug að hafa farið þarna inn,“ segir hún og segist hafa farið þaðan út með það í huga að panta þessa vöru frekar á netinu.
„Nema hvað, þá sendu þeir ekki til Íslands. Ég fór neðst á síðuna og fann þar sem stóð „shipping“, klikkaði á það og valdi Ísland. Þá stóð að hér væri enginn með umboðið og svo var spurt hvort maður vildi gerast umboðsmaður vörunnar. Ég og vinkona mín horfðum hvor á aðra og bara, já já! Við byrjuðum því tvær, ég og Rakel Ósk Orradóttir, með Blush. Ég fékk tvö hundruð þúsund krónur lánaðar hjá pabba til að kaupa kynlífstæki og boltinn fór að rúlla.“
Hvað sagði pabbi þinn þegar þú baðst um lán fyrir kynlífstækjum?
„Hann sagði já, ótrúlegt en satt. Ég sagði honum að ég vildi stofna fyrirtæki og á þessum tíma hafði pabbi smá áhyggjur af mér. Ég var atvinnulaus, nýbúin að eignast barn og búin að flosna upp úr skóla. Hann spurði mig hvernig fyrirtæki ég vildi stofna og ég man að það var ekki auðvelt að koma orðunum út úr mér. Ég muldraði: „kynlífstækjafyrirtæki“. Hann sagði margt vitlausara en það; við stundum jú öll kynlíf,“ segir Gerður sem fékk lánið.
„Mamma var svo fyrsti viðskiptavinur minn. Þannig að mamma og pabbi sýndu mér strax mikinn stuðning.“
Gerður og Rakel byrjuðu með heimakynningar þar sem þær kynntu vörur sínar.
„Þetta var mikið hark. Við vorum að auglýsa á Facebook og „múta“ vinkonum okkar til að halda kynningar. Þetta var eins og dýrt áhugamál; við gátum ekkert borgað okkur laun. Rakel fór svo út úr fyrirtækinu eftir eitt, eitt og hálft ár,“ segir Gerður og segist hafa verið í öðrum störfum til að afla sér tekna.
„Ég var lengi hjá Hópkaup og svo hjá K100 í sölumálum og var þar í fullu starfi. Svo var ég að selja Saladmaster-potta á virkum kvöldum og með heimakynningar Blush um helgar. Svo vann ég líka við það að elda allar máltíðir fyrir einn mann, hádegis- og kvöldmat. Og ég var með lítið barn. Ég vildi svo mikið láta þetta ganga,“ segir Gerður og átti að vonum ekki mikinn frítíma.
„Blush varð ekki til óvart eða fyrir heppni. Ég þurfti að hafa mikið fyrir þessu og þetta hefur verið blóð, sviti og tár. Og mikil fórn. Ég var allar helgar að vinna í staðinn fyrir að geta verið með barninu mínu,“ segir Gerður og segir að fyrstu tvö, þrjú árin hafi gróðinn verið enginn.
Hafðir þú strax einhverja sýn?
„Já, ég var með mjög skýra stefnu og sýn fyrir Blush og vissi að hugmyndin væri frábær. Ég vissi að hugmyndin gæti breytt viðhorfi Íslendinga til kynlífstækja. Það hafði enginn gert þetta eins og ég. En vandamálið var að ég hafði kannski ekki nógu mikla trú á sjálfri mér; að ég væri rétta manneskjan til að leysa þetta verkefni,“ segir Gerður.
„Skortur á sjálfstrausti til að vera nógu hugrökk var vandamálið og síðustu árin hef ég unnið mikið í sjálfri mér til að öðlast sjálfstraust, hugrekki og þolinmæði.“
Hver var þín sýn og hvernig átti búðin þín að vera öðruvísi?
„Markmið mitt var að færa kynlífstæki frá klámi yfir í kynheilbrigði. Ég vildi opna umræðuna um að þetta sé ekki eitthvað dónalegt. Það eiga allir rétt á því að upplifa fullnægjandi kynlíf.“
Ekki hefur alltaf blásið byrlega hjá Blush. Þegar fyrirtækið var þriggja ára opnaði Gerður fyrstu búð sína á Dalveginum en lokaði þremur mánuðum síðar.
„Ég sat þarna allan daginn og beið eftir viðskiptavinum en það kom enginn. Ég skildi ekkert í þessu. Ég átti engan pening og var búin að skuldsetja mig og sá að ég gat ekkert gert. Ég var bara fangi í þessari verslun sex tíma á dag. Svo liðu tvö, þrjú ár og þá opnaði ég 36 fermetra búð í Hamraborg en við sprengdum hana strax. Þá var ég að opna búð því ég gat ekki verið með þetta heima hjá mér lengur, ég var með fólk hér á hurðinni daglega,“ segir Gerður sem þá seldi vörur á netinu og í heimakynningum en segir svo marga hafa viljað koma sjálfir að sækja eða skoða.
„Stofan mín var teppalögð með pappakössum með kynlífstækjum,“ segir hún og hlær.
„Eitt skipti keypti ég þrotabú af sænsku fyrirtæki og fékk sent til Íslands og ákvað að vera með garðsölu. Ég auglýsti á Facebook: „Garðsala með kynlífstækjum“ og það varð allt kreisí! Ég setti fullt af borðum út í garð og raðaði á þau kynlífstækjum. Það var bílaröð frá Salalauginni og alla leiðina hingað. Það mættu fleiri hundruð manns og lögreglan þurfti að koma að stjórna umferðinni!“ segir hún og hlær.
Blush fór heldur betur að blómstra og þremur árum eftir að Gerður opnaði fyrstu verslunina í Hamraborg þurfti hún að stækka við sig og opnaði stærri verslun, einnig í Hamraborginni. Í fyrra opnaði hún síðan 860 fermetra verslun á Dalveginum.
„Að koma inn í þá verslun er eins og að ganga inn í ævintýraheim. Það er upplifun. Þarna fékk mín sköpunargleði að ráða,“ segir Gerður og segist hafa flutt inn risastórt kirsuberjatré frá Kína.
„Ég keypti það á Aliexpress og er það fimm metrar á hæð og sex á breidd. Það hafði verið draumur lengi að fá svona tré og loks gat ég það því það er átta metra lofthæð í nýju búðinni,“ segir Gerður og segist auðveldlega hafa getað fyllt þessa 860 fermetra, en fyrri búðin var 160 fermetrar.
„Það var allt að springa og ég var komin með lager og geymslur út um allt,“ segir Gerður en velta fyrirtækisins í fyrra var yfir sex hundruð milljónir. Salan tvöfaldaðist árið 2020, á fyrra ári kórónuveirunnar, og jókst svo um 40% í fyrra.
„Fólk var meira heima hjá sér og leiddist, eða fast í einangrun. Ég hélt að ég væri búin að metta markaðinn en svo er ekki. Viðhorfið er að breytast og fólk á ekki lengur bara eitt egg heldur heilan dótakassa.“
Nú varstu valin markaðsmanneskja ársins, það hlýtur að hafa gefið þér sjálfstraust?
„Já, auðvitað var það góð viðurkenning. Ég trúi því að ég eigi hana skilið því ég veit að ég hef staðið mig vel og er með skemmtilegar hugmyndir þegar kemur að markaðssetningu. En eins og svo margir þekkja þá á maður það til að fara að efast um ágæti sitt. Ég hugsaði smá, hvað ef fólk fattar að ég viti ekkert hvað ég er að gera? Hvað ef það kemst upp að ég er ekkert það klár og elska að sofa til hádegis?“ segir hún og hlær.
„En maður þarf að læra að hunsa svoleiðis hugsanir,“ segir hún og segir það vera mikinn heiður að fá þessa viðurkenningu. Sjálf hafi hún lengi litið upp til þeirra sem þennan titil hafa borið á undan henni.
„Ég horfði á þetta fólk vinna þessi verðlaun og fannst þau algjörar rokkstjörnur. Nú er ég búin að fá þesa viðurkenningu og fer að efast um sjálfa mig. Egóið mitt stækkar ekki heldur finnst mér ég þurfa að standa mig. Ég þarf að halda rétt á spöðunum og halda áfram en ég er mjög skynsöm. Ég er bara 32 ára og er með fullt af hugmyndum. Ég er rétt að byrja!“
Ítarlegt viðtal er við Gerði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.