„Við höfum leigt svona vélar fyrir tvö verkefni í röð og fyllt þær af búnaði. Þetta eru óneitanlega góð tíðindi fyrir efnahaginn á Íslandi,“ segir Leifur B. Dagfinnsson, framleiðandi hjá TrueNorth. Fraktflugvél Loftleiðir Icelandic lenti á Akureyrarflugvelli í vikunni með búnað fyrir kvikmyndatökur á vegum fyrirtækisins.
Í næstu viku hefjast hér tökur á sjónvarpsþáttunum Retreat. Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu er um stórt verkefni að ræða. Þættirnir eru framleiddir af FX sem heyrir undir Fox en TrueNorth greiðir götu tökuliðsins hér á landi. Í aðalhlutverki eru þau Clive Owen og Emma Corrin. Tökurnar á Íslandi standa yfir í um þrjár vikur, meðal annars á Siglufirði, í Vök Baths við Egilsstaði, á lúxushótelinu Deplum í Fljótum og í tónlistarhúsinu Hörpu.
„Við tökum á Norðurlandi næstu daga og svo förum við aðeins víðar um landið, látum opna fyrir okkur hótel og fleira,“ segir Leifur sem verst annars fregna af verkefninu. Samkvæmt upplýsingum blaðsins koma um 250 manns að tökunum
Líkt og kom fram í Morgunblaðinu um síðustu helgi hefur TrueNorth nýlega lokið við að þjónusta tökulið á vegum risans Marvel á Mývatni. Fyrirtækið flutti þá einnig mikið af tökubúnaði til landsins með fraktflugvél. „Við höfum átt mikil og góð viðskipti við Loftleiðir Icelandic. Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir mig enda var faðir minn, Dagfinnur Stefánsson, einn af stofnendum Loftleiða,“ segir Leifur.
Mikið líf hefur færst í kvikmyndabransann nú í byrjun árs. Auk þessara tveggja verkefna fóru fram tökur fyrir kvikmyndina Luther hér á landi fyrir skemmstu. Netflix framleiðir myndina ásamt BBC en það er hinn kunni leikari Idris Elba sem fer með aðalhlutverkið. Þá hafa tökur á sjónvarpsþáttunum Washington Black, sem framleiddir eru fyrir efnisveituna Hulu, farið fram á Austurlandi og í myndveri í Reykjavík. Auk þess standa nú yfir tökur á kvikmynd Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, Northern Comfort.