Líklegt er að það verði lítið ferðaveður á landinu í kvöld og nótt en milli 19 og 20 tók að hvessa allverulega við suður- og suðausturströndina að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Þá má búast við skafrenningi víða um land, þar sem lausamjöll er allvíða.
Gul viðvörun ríkir nú á Suðurlandi, Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Austfjörðum og Suðausturlandi.
„Svo í fyrramálið gengur norðaustanhríð á Norðurlandi vestra, Vestfjörðum og Breiðafirði,“ segir veðurfræðingur í samtali við mbl.is.
Þá verður mikil úrkoma á Austfjörðum í kvöld og í nótt.
„Ég myndi ráðleggja öllum frá því að ferðast um suðurströndina og væntanlega lokast allir vegir á Austfjörðum í þessu fannfergi þar. Síðan verður misjafnt ástandið á morgun. Það skefur víða og svo verður hríð þarna fyrir norðan á morgun.
Þannig ferðalög milli landshluta á morgun gætu verið svolítið tæp eitthvað fram eftir degi á morgun.“