Loka á rússneskar flugvélar og stjórnmálamenn

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákveðið hefur verið að loka lofthelgi Íslands fyrir rússneskri flugumferð. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra greinir frá þessu á Twitter-síðu sinni. Auk þess er búið að loka fyrir vegabréfsáritanir rússneskra diplómata, viðskiptafólks, þingmanna og fulltrúa stjórnvalda.

Segir Þórdís ákvörðunina tekna til að sýna samstöðu með Úkraínumönnum vegna innrásar Rússa þangað.

Talið er að rússnesk flugfélög megi búast við því að verða útilokuð alfarið frá evrópskri lofthelgi en utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkja funda síðar í dag.

Búið er að loka fyrir vegabréfsáritanir rússneskra diplómata og munu þeir því ekki geta komið hingað til lands. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá þessu í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni rétt í þessu.

Uppfært kl. 11.32:

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að ekki sé verið að loka á almenna rússneska ferðamenn, námsmenn og aðra sem áfram muni fá venjubunda afgreiðslu sinna umsókna.

Ísland mun, til samræmis við aðgerðir Evrópusambandsins, afnema sérstaka einfaldari meðferð varðandi áritanir rússneskra diplómata, viðskiptafólks, þingmanna og fulltrúa stjórnvalda, en þau réttindi byggja á tvíhliða samningi ríkjanna,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert