Pakki, sem póstlagður var í Reykjavík árið 1949 og ætlaður var konu búsettri í Lübeck í Þýskalandi, barst sendanda í hendur rúmum 32 árum síðar óopnaður með árituninni „móttakandi finnst ekki“.
Hildi Björnsdóttur, Grjótanesi, Melrakkasléttu, brá heldur betur í brún snemma árs 1982 þegar henni barst pakki sem hún hafði póstlagt árið 1949 aftur í hendur – óopnaður.
Hann hafði sumsé verið í rúm 32 ár á þvælingi. Í pakkanum var gjöf sem ætluð var móður Hildar, sem þá bjó í Lübeck í Þýskalandi, en hún hafði verið látin í um tvo áratugi þegar hann loksins kom í leitirnar.
En af hverju missti móðir Hildar? Í pakkanum voru tvær Gefjunar-peysur og tveir pakkar af Raleighsígarettum. „Þetta var algjörlega óskemmt, enda í góðum pappakassa,“ sagði Hildur við Morgunblaðið.
Sígaretturnar voru ekki einu sinni uppþornaðar. „Nei, nei. Það var ilmandi tóbakslykt þegar við opnuðum pakkana. Við reyktum þær með góðri lyst, en pappírinn var eitthvað gulnaður af elli,“ bætti hún við.
Hildur sagði svo frá: „Pakkinn hefur sennilega farið með skipspósti á sínum tíma, en kom aldrei fram, þrátt fyrir að við spyrðumst fyrir bæði hér heima og í Þýzkalandi. Gestur sem kom hingað í sumarlok eða um haustið 1949 tók pakkann fyrir mig og póstlagði í Reykjavík, en það var ekki fyrr en nú fyrir skemmstu, að mér barst þessi tilkynning um að ég ætti endursendan pakka í pósti, og þess getið, að hann væri frá Þýzkalandi. Þegar ég sá að póstsendingin var stíluð til móður minnar og með ættarnafninu mínu, sem ég bar áður en ég gifti mig hérlendis, uppgötvaði ég að þetta hlyti að vera sami pakkinn. Á tilkynningunni var þess getið að ég ætti að greiða 51 krónu í endursendingarkostnað, en póstmeistaranum á Kópaskeri fannst það jafn fráleitt og mér að ég þyrfti að greiða það gjald eftir allan þennan tíma.“
Hildur gat ekki fundið neina haldbæra skýringu á þessu óvenjulega máli en sagði að pakkinn virtist þó aldrei hafa náð lengra en til Hamborgar, því þar hefði verið skrifað á hann að móttakandi fyndist ekki.
Peysurnar í pakkanum voru auðvitað löngu komnar úr tísku. Það voru Gefjunar-peysur þess tíma, ein karlmannspeysa og kvengoltreyja. „En peysurnar sem eru úr íslenzkri ull, sýna kannski bezt þá framför sem orðið hefur á vinnslu ullarinnar. Ullin er mjög hörð í peysunum, sem þóttu með þeim vönduðustu á þeim tíma. Þetta er ekkert sambærilegt við það sem við klæðumst í dag,“ sagði Hildur og tók Pollýönnuna á þetta.
Nánar er fjallað um málið og fleira hnýsilegt sem var í fréttum snemma árs 1982 í Tímavélinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.