Vilja að Íslendingar í Rússlandi láti vita af sér

Frá handtöku lögreglu í miðborg Moskvu í dag, en þar …
Frá handtöku lögreglu í miðborg Moskvu í dag, en þar fóru fram fjölmenn mótmæli. AFP

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins vekur athygli á því að nokkrar af helstu vinaþjóðum Íslands vara nú við ferðum til Rússlands.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu er bent á að flugleiðum úr landinu hafi fækkað ört vegna lokunar lofthelgi Evrópuþjóða fyrir rússneskum loftförum og gagnkvæmra aðgerða rússneskra yfirvalda.

Eins og mbl.is greindi frá nú í kvöld hefur rússneska ríkisflugfélagið aflýst öllum flugferðum til Evrópu í kjölfar lofthelgisbanns ríkja Evrópusambandsins. Ísland hefur einnig tekið þátt í banninu.

Líkur á meiri óstöðugleika

Í tilkynningunni segir einnig að líkur séu á að óstöðugleiki í Rússlandi muni fara vaxandi.

„Borgaraþjónustan hvetur íslenska ríkisborgara sem eru nú þegar staddir í Rússlandi til að huga að ferðaskilríkjum, vera tilbúna að breyta ferðaáætlunum með stuttum fyrirvara og fylgjast vel með ferðaviðvörunum utanríkisráðuneyta Norðurlanda,“ segir í tilkynningunni.

„Þeir eru einnig hvattir til að láta borgaraþjónustuna vita af sér með tölvupósti, hjalp@utn.is. Í neyðartilfellum er hægt að hafa samband við borgaraþjónustuna í síma +354 545-0112.“

Bent er á að hér megi finna tengla á vefsíður utanríkisráðuneyta Norðurlanda.

„Þá bendum við á snjallforritið Rejseklar þar sem hægt er að fá tilkynningar um breytingar á ferðaviðvörunum danskra stjórnvalda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert