„Fólk elskar bollur“

Passion bakarí bauð upp á 18 tegundir af bollum.
Passion bakarí bauð upp á 18 tegundir af bollum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum alltaf þekkt fyrir úrval, alveg sama hvort það er brauð, sætabrauð eða hvað. Þetta er okkar sérstaða og við höldum því áfram í öllu,“ segir Lilja Guðrún Liljarsdóttir, eigandi Passion bakarí, sem býður upp á 18 tegundir af bollum til sölu í dag.

Óhætt að fullyrða að um sé að ræða landsins mesta úrval af bollum. En fyrir þá sem ekki vita, þá er bolludagurinn í dag.

„Fólk er svo mismunandi og það er bara gaman að breyta aðeins til og hafa svolítið fyrir þessu,“ bætir Lilja við, en markmiðið er að allir finni eitthvað við hæfi sinna bragðlauka hjá þeim.

Tvær nýjar tegundir slá í gegn

Hún segir að vissulega fyllist sumir valkvíða þegar þeir sjá allt úrvalið en margir eru þó búnir að kynna sér hvað er í boði áður en þeir koma á staðinn og vita alveg hvað þeir vilja. Segja þá einfaldlega númerið á bollunni sem þeir ætla að fá. „Það hjálpar alveg til,“ segir Lilja hlæjandi. 

Konudagsbollan hefur vakið mikla lukku.
Konudagsbollan hefur vakið mikla lukku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allar bollutegundirnar hafa selst vel en þó eru tvær sem standa upp úr, fyrir utan hina klassísku rjómabollu með súkkulaði og sultu.

„Nýja vegan-bollan sem við komum með núna, með ferskum jarðarberjum og Oreo, hún er ofboðslega vinsæl. Svo myndi ég segja konudags-bollan, með saltkaramellurjóma, brownies og fleiru. En klassíkin er alltaf vinsælust,“ segir Lilja.

Gerir ráð fyrir 25 þúsund bollum

Nú þegar hafa bakararnir bakað rétt rúmlega 22 þúsund bollur en þeir eru ennþá að og gerir Lilja ráð fyrir að um 25 þúsund bollur verði bakaðar í heildina.

Og hún gerði ráð fyrir að þær myndu allar seljast upp, hver ein og einasta.

„Við höfum alltaf selt allt, það selst allt upp. Núna erum við eiginlega í vandræðum. Venjulega eru flestir bakararnir farnir heim en þeir eru átta núna niðri að hamast við að búa til meira. Það er eiginlega allt að verða búið, það er svo rosaleg eftirspurn,“ segir Lilja en blaðamaður ræddi við hana um eittleytið.

Hver væri ekki til í eina Bollu ársins?
Hver væri ekki til í eina Bollu ársins? mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún telur að afléttingar á öllum takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins spili inni í varðandi eftirspurn, fleiri séu á ferli en áður, en fólk sé líka mjög forvitið um þetta mikla úrval. „Fólk elskar bollur.“

Ævintýramennskan ekki bundin við unga fólkið

Að sögn Lilju virðist fólk mjög ófeimið við að prófa nýjar og frumlegar tegundir af bollum. „Fólk er rosalega duglegt við að prófa eitthvað nýtt, alveg ofboðslega. Maður getur líka lýst þessu nokkuð vel og selt fólki þegar maður er búin að smakka þetta nokkrum sinnum,“ segir hún kímin og bendir á mikilvægi þess að þekkja vöruna sem verið er að selja.

Bollurnar eru jafn frumlegar og þær eru margar. Crossiant getur …
Bollurnar eru jafn frumlegar og þær eru margar. Crossiant getur líka verið bolla, allavega á bolludaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá segir hún ævintýramennsku í bolluáti ekki endilega bundna við yngra fólk. „Það eru allir spenntir. Þetta hefur oft verið þannig að það er þessi millikynslóð, eldri kynslóðin og fyrirtækin sem eru mest í bollunum. En núna hefur verið að koma mikið af ungum krökkum líka. Menntaskólakrakkarnir eru að koma að kaupa sér bollu og kaffi. Það hef ég til dæmis ekki séð áður.“

Bollusalan hófst á miðvikudaginn í Passion bakaríi, en farið var rólega af stað og aðeins tvær tegundir í boði í fyrstu. Svona til að hita upp fyrir helgina. Á laugardaginn hófst svo bollusalan af fullum þunga með öllum sínum átján tegundum og nær hún hápunkti í dag, bolludaginn.

Lilja gerir ráð fyrir að allar bollurnar seljist upp í …
Lilja gerir ráð fyrir að allar bollurnar seljist upp í dag, eins og áður. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert