Ísland á bannlista Rússa

Rússar hafa bannað flugfélögum frá hátt í 40 löndum að …
Rússar hafa bannað flugfélögum frá hátt í 40 löndum að fljúga í gegnum lofthelgi sína. AFP

Ísland er á lista Rússa sem telur hátt í 40 lönd sem hefur nú verið bannað að fljúga í gegnum lofthelgi þeirra í ljósi refsiaðgerða Evrópulanda gegn Rússlandi vegna innrásar í Úkraínu.

Fyrr í dag tilkynnti rússneska flugumferðarstjórnin Rosaviatsia að búið væri að banna flugferðir flugfélaga frá 36 Evrópulöndum í gegnum lofthelgi landsins. Mun fjöldinn allur af flugfélögum þurfa að endurskipuleggja flugleiðir til að sniðganga rússnesku lofthelgina, að því er fram kemur í frétt BBC.

Þessi tilkynning kemur nú degi eftir að Evrópusambandið og önnur lönd innan Evrópu sem heyra ekki þar undir, kynntu svipaðar aðgerðir gegn Rússum, þar á meðal Ísland.

Samkvæmt BBC eru löndin sem hefur verið bannað að fljúga í gegnum lofthelgi Rússlands eftirfarandi: Ísland, Albanía, Anguilla, Austurríki, Belgía, Bresku Jómfrúareyjurnar, Búlgaría, Kanada, Króatía, Kýpur, Tékkland, Danmörk, Grænland, Færeyjar, Eistland, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Gíbraltar, Grikkland, Ungverjaland, Írland, Ítalía, Jersey, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Malta, Holland, Noregur, Pólland, Portúgal, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð og Bretland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert