Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sótti fund ráðherra dóms- og innanríkismála hjá Evrópusambandinu og Schengen-svæðinu í Brussel í gær. „Það er mjög góð þátttaka sem endurspeglar þá samstöðu sem er á milli Evrópuþjóðanna í þessum málefnum Úkraínu og nágrannalandanna,“ segir Jón og nefnir að fundurinn var boðaður með mjög stuttum fyrirvara. „Við erum að reyna að móta þær ráðstafanir sem á að grípa til.“
Á fundinum var meðal annars rætt um mannúðaraðstoð, flóttamannamál, vegabréfsáritanamál og öryggi ytri landamæra Schengen-svæðisins en annar fundur verður haldinn síðar í vikunni á milli Schengen-ríkjanna.
„Menn eru að horfa til þeirra viðbragða sem við getum gripið til gagnvart Úkraínu og fólkinu sem er að flýja land frá þessum hörmulegu aðstæðum. Hvernig við getum tekið á móti því fólki, veitt því skjól og það sem til þarf,“ segir Jón og bætir við að ráðherrarnir fordæmdu allir sem einn aðgerðir Rússa og ítrekuðu stuðning og samábyrgð með Úkraínu.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.