Íslensk stjórnvöld munu ekki greina frá þeim farmi sem fór um borð í fraktflutningavélina, sem þau tóku á leigu til að aðstoða Úkraínumenn í vörn sinni gegn innrás Rússa.
Greint var frá því í dag að flugvélin hefði farið með búnað til Úkraínu í nótt. Flogið hefði verið frá Slóveníu í samvinnu við yfirvöld þar í landi, til áfangastaðar nálægt landamærum Úkraínu.
Vélin var tekin á leigu frá flugfélaginu Air Atlanta.
Í svari við fyrirspurn mbl.is um hvað vélin hafi haft að geyma segir einungis í svari utanríkisráðuneytisins að um hafi verið að ræða hergögn frá Slóveníu, í samræmi við ákall úkraínskra stjórnvalda.
„Hvað farminn frá Slóveníu varðar munu íslensk stjórnvöld ekki greina nánar frá innihaldi hans,“ segir í svarinu.