Lögreglan sé að fara á eftir blaðamönnum

Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður Stundarinnar.
Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður Stundarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður Stund­ar­inn­ar, segir niðurstöðu Héraðsdóms Norðurlands eystra vera þá sem hann átti von á. Hann segir dóminn skýran og afgerandi.

Eins og mbl.is greindi frá í dag komst héraðsdóm­ur að þeirri niður­stöðu að lög­reglu­stjór­an­um á Norður­landi eystra hafi ekki verið heim­ilt að veita Aðal­steini rétt­ar­stöðu sak­born­ings í rann­sókn vegna um­fjöll­un­ar um skæru­liðadeild Sam­herja.

Fréttirnar hafi átt erindi við almenning

Aðalsteinn segir að í meðferð málsins hafi afhjúpast að lögreglan sé að rannsaka eitthvað sem hvorki vísbendingar virðist vera um að hafi verið framið, né séu vísbendingar um að hann sjálfur eigi aðild að.

„Það liggur alveg ljóst fyrir eftir þennan málarekstur að lögreglan er að fara á eftir blaðamönnum, byggt á því sem þeir hafa skrifað í fjölmiðla,“ segir Aðalsteinn.

Hann segir ánægjulegt að sjá afgerandi í úrskurði héraðsdóms að þær fréttir sem fluttar voru af skæruliðadeild Samherja hafi átt erindi við almenning.

Málið snúist um afstöðu lögreglunnar til blaða- og fréttamanna

Spurður út í orð Eyþórs Þorbergssonar, varasaksóknara fyrir norðan, í viðtali hjá Vísi í dag segir Aðalsteinn þau vera í takt við þann málatilbúnað sem lögreglan hefur boðið upp á.

Í viðtalinu segist Eyþór ekki taka niðurstöðu héraðsdóms persónulega. Hann sagði að ef hann þyldi ekki gagnrýni á sín störf væri hann í blómaskreytingum og bætti við að það sé nokkuð sem ýmsir blaðamenn mættu taka til sín.

„Þarna afhjúpar hann algjörlega að þetta snýst um afstöðu lögreglunnar til blaða- og fréttamanna,“ segir Aðalsteinn.

„Enn á ný slær hann í og úr með það hvort að málið snúist um starf okkar sem blaðamenn, sem að mínu viti er algjörlega augljóst og ég tala nú ekki um þegar að saksóknari, handhafi framkvæmda- og lögregluvalds, tjáir sig með jafn afgerandi hætti um að blaðamenn þurfi að þola gagnrýni.“

Aðalsteinn bætir við að hann hafi ekki vitað að málið snérist um gagnrýni lögreglunnar á störf blaðamanna en að það hafi verið staðfest með orðum Eyþórs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert