Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur komist að þeirri niðurstöðu að lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra hafi ekki verið heimilt að veita Aðalsteini Kjartanssyni, blaðamanni Stundarinnar, réttarstöðu sakbornings í rannsókn vegna umfjöllunar um skæruliðadeild Samherja.
Hann mun því ekki þurfa að mæta til skýrslutöku hjá lögreglu vegna málsins. Þetta staðfestir Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Aðalsteins, í samtali við mbl.is, en Stundin greindi fyrst frá.
Þrír aðrir blaðamann fengu réttastöðu sakbornings vegna málsins, en Gunnar gerir ráð fyrir að úrskurðurinn nái til þeirra líka.
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hafði boðað blaðamennina fjóra til skýrslutöku í tengslum við rannsókn á broti gegn friðhelgi einkalífsins, en Aðalsteinn ákvað að láta reyna á lögmæti aðgerða lögreglu.
Þegar lögregla lagði fram greinargerð sína fyrir dómi í síðustu viku kom í ljós að blaðamennirnir voru grunaðir um að hafa dreift kynferðislegu efni með því að afrita gögn og senda úr síma Páls Steingrímssonar, skipstjóra Samherja, sem var hluti af skæruliðadeildinni. En í símanum voru myndbönd af Páli í kynlífsathöfnum.
Gunnar sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að Aðalsteinn hefði aldrei fengið síma Páls í hendurnar og því aldrei séð áðurnefnd kynlífsmyndbönd. Hann hefði einungis séð þau gögn úr símanum sem hann skrifaði um.