Reiðubúin að taka á móti flóttafólki

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að það væri skýrt að íslensk stjórnvöld væru reiðubúin að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu ef þess yrði óskað. 

Sagði Katrín að flóttamannanefnd hefði verið beðin að leggja mat á stöðuna og koma með tillögur til ríkisstjórnar. 

Katrín var að svara fyrirspurn frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, um hvenær mætti búast við skýrri stefnu og opnum faðmi til að taka á móti fólki, einkum frá Úkraínu. Sagðist Þorgerður Katrín  jafnframt vera ánægð með það hvernig forsætisráðherra og utanríkisráðherra hefðu stigið fram af einurð og eindrægni og lýst yfir samstöðu gagnvart ofríki Rússa. 

Þorgerður Katrín sagði að Íslendingar þyrftu að standa vörð um markmið og verka sín gildi þá stæðu þeir með Úkraínu. „Mér finnst skipta máli að ríkisstjórnin viti það, að hún er með trausta bakhjarla hér á þingi þegar kemur að því að taka afgerandi afstöðu með fólkinu í Úkraínu, með lýðræðinu, með mannréttindunum,  með frelsinu,“ sagði hún. 

Katrín sagði, að atburðirnir í Úkraínu hefðu sýnt fram á hve mikið verðmæti fælust í friði í heiminum. „Friður er í raun og veru undirstaða  allra framfara, efnahagslegra sem samfélagslegra. Og við sjáum það þegar brýst út stríð með þessum hætti, með þessari innrás, hvernig lífi þessa fólks, venjulegs fólks, er hreinlega snúið á hvolf. Það leggur á flótta eða grípur til vopna. Í Úkraínu er ekki verið að ræða þau verkefni, sem við getum leyft okkur að fást við hér, þegar við ræðum um efnahagslegar framfarir, velsældarmarkmið og fleira. (...) Ég veit að ég tala fyrir munn okkar allra, að við vonumst svo sannarlega til þess að þessum stríðsátökum ljúki sem fyrst. Það hefur verið alger samstaða um það ákall: hernaðinum verður að linna. Við gerum okkar meðan á þessu stendur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert